Tolli Morthens, lista- og hugsjónamaður, er nú staddur í Argentínu þar sem hann klífur eitt hæsta fjall heims, fjallið Aconcagua sem liggur að landamærum Síle.

Fjallið er hæsta fjall í Suður-Ameríku og er hluti af Andes fjöllunum og rís hæst í 6961 metra.

Tolli ætlar upp fjallið ásamt ferðafélaga sínum, Arnari Haukssyni en þeir héldu út til Argentínu þann 4. janúar síðastliðinn.

Leiðangurinn er ætlaður til að vekja athygli á starfsemi Batahúss sem tók til starfa á síðasta ári og um leið safna áheitum fyrir starfsemina.

Í fréttatilkynningu segir að Batahús sé einstaklingsmiðað bataúrræði við enda afplánunar þar sem einstaklingum er boðin heimilisaðstaða til allt að tveggja ára eða eftir atvikum til skemri tíma.

„Unnið er með einstaklingum á jafningjagrundvelli út frá hugmyndum um áfallamiðaða nálgun. Báðir eru Tolli og Arnar í stjórn Batahúss,“ segir jafnframt í tilkynningunni.

Bakið á Tolla, húðflúrið af Buddha á bakinu á honum er eftir Fjölni Geir Bragason listamann sem lést í lok síðasta árs.
Fréttablaðið/Aðsendar myndir Tolli og Arnar

„Þetta verður fyrir mig, mikil bata og sáttar ganga, en við tileinkum gönguna Batahúsinu og þá er meiningin að safna pening með áheitum í Sollu-sjóðinn sem styður við starfsemi hússins,“ Sagði Tolli í nýársfærslu sinni á Facebook.

„Fyrir utan ýmsa eðlilega fyrirvara á svona fjallgöngu þá er óvissan gríðarleg með það hvert Covid faraldurinn fer með þetta. Falla flug niður, lokast landamæri eða veikjast menn í búðum á fjallinu og fleira í þeim dúr. Við eru staðráðnir í að leggja inn fyrir góðu ári.“

Bati góðgerðarfélag stofnaði Sollusjóð sem er sjálfstæður sjóður. Hlutverk hans er að styrkja skjólstæðinga Batahúss með fjárhagslegum hætti meðal annars til að sækja sér sérfræðiaðstoð hjá sálfræðingum, fíknifræðingum og öðrum fagaðilum.

„Jafnframt styrkir Sollusjóður nám, námskeið, ýmis konar fræðslu og tannlæknakostnað svo eitthvað sé nefnt,“ að því er fram kemur í tilkynningunni.

Hægt er að styrkja sjóðinn: Kennitala félagsins er 630921-1390 Reikningsnúmerið er 0537-26-7487

Hægt er að fylgjast með þeim félögum á ferðalagi sínu á Facebook-síðu Tolla.