Brynjar Ólafsson er einn af trommurum Tólfunnar sem hafa heldur betur slegið taktinn fyrir landsliðið og stuðningsfólk þess. Hann er staddur á Tenerife þar sem hann splæsti á sig Tólfu húðflúri sem hann hefur lengi haft hug á að merkja sig með.

„Ég er búinn að vera í Tólfunni síðan í undankeppni EM og trommur og Tólfan skipa stóran sess í lífi mínu en ég er því miður ekki á leiðinni til Rússlands,“ segir Brynjar en það eru ekki síst mikill kostnaður og löng og ströng ferðalög sem valda því að hann sættir sig við að styðja landsliðið frá Íslandi. 

„Ég er búinn að vera að pæla í þessu lengi,“ segir Brynjar um flúrið sem er tilbrigði við merki Tólfunnar. „Húðflúrarinn hérna á Tenerife breytti þessu svo aðeins.“

En hvernig tilfinning er það fyrir trylltan Tólfu-trommara að þurfa að fylgjast með landsliðinu úr fjarlægð á þessum sögulega tíma í íslenskri knattspyrnusögu?

„Úff, það verður mikil spenna að horfa á leikina heima á Íslandi. Ég hefði nú ekkert á móti því að tromma með Tólfunni á pöllunum úti og þá sérstaklega á leiknum gegn Argentínu. Það væri draumur en maður styður bara við bakið á strákunum héðan af klakanum,“ segir Tólfu-trommarinn, nýflúraður, vígreifur en dálítið svekktur.