Á síðustu árum eru íslensk fyrirtæki að leggja meiri áherslu en áður á nýtingu gagna og greininga í mannauðsmálum. Slíkar greiningar gefa innsýn í ólíka þætti rekstrar fyrirtækjanna og styðja oft við fjárhagsupplýsingar úr rekstrinum og tryggja þannig sem vandaðasta ákvörðunartöku.

Hraðar tæknibreytingar hvetja fyrirtæki til þess að horfa lengra til framtíðar en áður og undirbúa þannig ólíkar sviðsmyndir um þróun starfa, markaða, þjónustu og vara. Ákveðin störf eru að umbreytast mjög hratt og önnur að leggjast af.

Greiningar á starfsfólkinu í fyrirtækinu hjálpa til við að taka betri ákvarðanir undir þessari nýju tegund af óvissu. Meta þarf í ljósi ólíkra sviðsmynda um framtíðina hvernig störf muni líta út í fyrirtækinu eftir fimm til tíu ár. Ákvarðanir dagsins í dag eru svo háðar slíkum greiningum, til að mynda hvaða fólk á að leggja áherslu á að ráða, hvernig viðhalda eigi þekkingu og bæta við þekkingu þar sem hana skortir í dag. Á að ráða nýtt starfsfólk með þessa þekkingu eða byggja hana upp innanhúss með fræðslu og þjálfun?

Víðir Ragnarsson er forstöðumaður ráðgjafar PayAnalytics. MYND/AÐSEND

Nýjar áskoranir

Til þess að geta tekið slíkar ákvarðanir þurfa fyrirtæki að hafa greiningu á þekkingu starfsfólksins síns. Hvaða starfsfólk verður fyrirtækinu mikilvægast á næstu árum og er það annað fólk en er það mikilvægasta í dag. Þetta eru dæmi um þær áskoranir sem tæknivæðing er að færa fyrirtækjum og það eru sterkar vísbendingar um að hæfni fyrirtækja til þess að greina mannauð sinn eigi eftir að ráða miklu um samkeppnisforskot þeirra.

Mælingar sem tengjast ánægju í starfi og tryggð starfsfólks til fyrirtækisins, eru þekktari og hafa lengi verið notaðar af íslenskum fyrirtækjum.

Við erum samt að sjá fyrirtæki nýta þessar greiningar á nýjan hátt, þannig eru til dæmis slíkar mælingar tengdar við mælingar á ráðningum, starfsmannaveltu og kynjasamsetningu deilda og þannig fæst dýpri skilningur á því hvernig þessir þættir vinna saman. Við myndum gjarnan vilja geta byggt framvirk líkön sem gefa til dæmis til kynna áhættuþætti sem geta birst í vinnustaðargreiningum deilda nokkrum árum áður en til að mynda mikilvægt starfsfólk hættir í þessum sömu deildum. Þannig væri hægt að bregðast við fyrr en í óefni er komið.

Þetta eru örfá dæmi um hvernig íslensk fyrirtæki eru að mæla og nýta greiningar á fólkinu sínu til þess að taka betri ákvarðanir sem skila fyrirtækjum ánægðara starfsfólki, sem hefur rétta hæfni til þess að sinna þeim verkefnum sem eru mikilvægust fyrirtækjunum á hverjum tíma fyrir sig.

Víðir Ragnarsson, forstöðumaður ráðgjafar PayAnalytics.