Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir, þingkona Viðreisnar, hefur ákveðið að mæta ekki aftur í vinnuna með andlitsgrímuna sem hún mætti með í dag. Hún segist hafa áttað sig á því eftir athugasemd annars þingmanns að útlit grímunnar minnti óþægilega á blúndunærbuxur.
„Í mörg ár hef ég verið aðdáandi Ruth Bader Ginsburg. Svo mikill að vinkona mín gaf mér um daginn grímu með hvítan kraga, eins og RBG var gjarnan með við dómaraskikkjuna. Ég gekk stolt inn í þinghúsið og merkti að gríman vakti eftirtekt. Það gat ég skilið,“ skrifar Þorbjörg á Facebook í dag.
„Síðan gerðist svolítið. Góður samstarfsmaður spurði mig um nýju grímuna. Ég sá að hann virtist hugsi. “Kannski svolítið eins og þú sért með nærbuxur yfir andlitinu”, sagði hann,“ segir Þorbjörg. Andrés Ingi, þingmaður utan flokka, gengst þá við því í athugasemd við færsluna að vera „góði“ samstarfsmaðurinn sem benti Þorbjörgu á þetta.
Og athugasemdin virðist hafa setið í Þorbjörgu: „Ein þessara stunda þegar myndin breytist. Snögglega,“ skrifar hún. „Það er auðvitað eitthvað verulega brogað við að ganga um Alþingi með nærbuxur yfir andlitinu. Fór heim, lagðist upp í sófa og kvaddi grímuna eftir samveru einn stuttan en góðan dag.“
Í mörg ár hef ég verið aðdáandi Ruth Bader Ginsburg. Svo mikill að vinkona mín gaf mér um daginn grímu með hvítan kraga,...
Posted by Thorbjorg Sigridur Gunnlaugsdottir on Friday, 4 December 2020