„Fyrrum bíllinn okkar er aug­ljós­lega orðinn ein­hvers konar tákn­mynd fyrir sam­tímann,“ segir Stefán Páls­son sagn­fræðingur í at­hyglis­verðri færslu á Face­book-síðu sinni.

Þar segir Stefán frá því að hann og eigin­kona hans, Al­þingis­konan Steinunn Þóra Árna­dóttir, hafi lent í á­rekstri fyrir einum og hálfum mánuði þegar ekið var aftan á bif­reið þeirra á horni Háa­leitis­brautar og Lista­brautar.

„Þetta var alls ekki harður á­rekstur, þannig blésu líknar­belgirnir ekki út og við kenndum okkur einskis mein. Stuðarinn á litlu Yaris-dósinni var í klessu og skottið var eitt­hvað gengið til, svo maður sá fram á ein­hvern tíma á verk­stæði,“ segir Stefán meðal annars.

Hann bætir svo við að þegar á verk­stæðið var komið hafi bif­véla­virkjarnir verið fljótir að kveða upp dauða­dóm.

„Átta ára gamlir bílar þykja víst forn­gripir og bíla­við­gerðir svo dýrar að engin glóra sé talin í að reyna að laga neitt. Allt sett í tætarann,“ segir Stefán og bætir við að bíllinn sé aug­ljós­lega orðinn eins­konar tákn­mynd fyrir sam­tímann.

Stefán virðist langt því frá sá eini sem lent hefur í þessu. Stjórn­mála­fræðingurinn og pistla­höfundurinn Svan­borg Sig­mars­dóttir segir í athugasemd við færsluna að bíll hennar hafi fengið sams­konar dauða­dóm fyrir ein­hverjum árum.

„Ein­hverjum mánuðum síðan hringdi svo maður á Suður­landinu sem hafði keypt ó­nýtan bílinn. Í þrifum hafði hann rekist á týnt öku­skír­teinið mitt. Það er ekk­kert mjög langt síðan að ég sá að þau voru í borgar­ferð á "ó­nýtum bílnum",“ segir hún.