Sverrir Norland rithöfundur lenti í því óhappi að bókin Feluleikur, sem hann þýddi fyrir AM forlag, eftir myndhöfundana Lolitu Séchan og Camille Jourdy, innihélt prentgalla.
„Það eru prentgallar í þessu fyrsta upplagi – og því höfum við tekið bókina úr sölu í búðum. Við fiskuðum út þau eintök sem eru næst því að standast gæðakröfur AM forlags og ætlum að halda þeim í sölu á vefsíðunni okkar, amforlag.com, á hálfvirði,“ segir Sverrir á Facebook.
Hann segir að fæstir lesendur komi til með að taka eftir göllunum. „En við erum í þessum bransa til að gera eins fallegar bækur og við mögulega getum. Engin miskunn. Við erum ekkert að grínast,“ segir Sverrir og bætir við að nýtt upplag af bókinni komi fyrir jól.
„Þessi bók er hins vegar stórfenglega skemmtileg og ég vona að þið njótið hennar sem flest. Sem sagt: Hreppa má góðu eintökin á hálfvirði á síðunni okkar meðan birgðir endast, á aðeins 1.745 kr.“
Sverrir skemmti sér vel við þýðingu bókarinnar.
„Það var gaman að íslenska hana og leika sér með textann, og ég fékk meira að segja leyfi hjá Sveinbirni I. Baldvinssyni til að nota nokkur vel valin brot úr Laginu um það sem er bannað.“
