Kvikmyndin Clueless er nú orðin 25 ára gömul og hefur fest sig vandlega í sessi sem költ-klassík og hálfgert tímahylki tísku 10. áratugs síðustu aldar, eða að minnsta kosti þeirrar tísku sem fólk langar að muna eftir frá þeim tíma.

Búningahönnuður Clueless, Mona May, sem starfaði líka sem búningahönnuður kvikmyndanna Romy And Michele’s High School Reunion, Never Been Kissed, The Wedding Singer og Enchanted, var nýlega í viðtali við fréttastofu PA Media í Bretlandi í tilefni af 25 ára afmæli kvikmyndarinnar. Þar sagði hún frá ferlinu á bak við búningahönnunina.

Búningahönnuðurinn Mona May sagði frá ferlinu á bak við hönnun búninganna í Clueless í nýlegu viðtali í tilefni af 25 ára afmæli myndarinnar. MYND/GETTY

May segir að Alicia Silverstone, sem leikur Cher Horowitz, aðalpersónu Clueless, hafi mátað köflóttar dragtir í ýmsum litum, áður en gula dragtin frá Dolce & Gabbana, sem seinna varð fræg, fannst. May segir að sú dragt hafi undirstrikað að Cher Horowitz væri drottning skólans.

Sólrík drottning skólans

„Atriðið sem við vorum að finna klæðnað fyrir átti sér stað utandyra og það er mikið af grænum gróðri í Kaliforníu, mikið af litum og plöntum og það var mikið af fólki að labba í veg fyrir hana og mikið að gerast, þannig að hún þurfti að skera sig úr,“ sagði May. „Þannig að við byrjuðum að máta fötin. Það voru 60 sett af fötum fyrir Aliciu, þannig að það var mikið af fötum til að máta. En fyrir þetta tiltekna atriði vildum við prófa dragtir og við vildum nota köflóttan, vegna þess að köflóttur er svo tengdur skólabúningum og fyrsta skóladeginum, það passar bara.

Við vorum með bláa dragt, hún var falleg en hún stóð ekki nógu mikið út úr. Við prófuðum svo rauða dragt, en það var of mikið, það var eins og hún væri að reyna of mikið og hún var kannski aðeins of jólaleg,“ sagði May. „Og svo prófuðum við þá gulu og við tókum allar andköf af því að þar var þetta komið.

Aðalpersónur Clueless eru ríkar, frá Beverly Hills og með brennandi áhuga á tísku og strákum. MYND/GETTY

Dragtin var gul, hún var sólskin, hún var drottning skólans, þannig orka geislaði bara af henni,“ sagði May. „Þegar við ímynduðum okkur Aliciu að labba í þessu atriði með allt þetta fólk í kringum sig vissum við að augu allra yrðu samt á henni.“

Lítill innblástur frá grugginu

May segir að henni hafi þótt erfitt að fá innblástur frá menntaskólum fyrir búningana árið 1995, vegna þess að grugg-útlitið var svo allsráðandi. „Í handritinu er talað um þessar stelpur sem eru ríkar, frá Beverly Hills og með áhuga á tísku, nógu ríkar til að fara á tískusýningarnar,“ sagði hún. „Þannig að þaðan tók ég innblásturinn minn, frá sýningarpöllunum. Svo þurfti ég að taka allar þessar hugmyndir og finna út úr því hvernig þær myndu virka í menntaskólasamhengi.

Ég vildi ekki að þær væru ofurfyrirsætur hlaupandi um á háum hælum með bert mitti, ég vildi að þær væru ungar stúlkur í klæðnaði sem væri viðeigandi fyrir aldur þeirra,“ sagði May.

„Þannig að ég þurfti eiginlega að finna út hvað myndi vera tímalaust, eins og ermahnappar, kaskeiti, hnepptir frakkar og köflótt pils.“

May segir að gerð kvikmyndarinnar hafi verið erfið, því það hafi ekki verið miklir peningar til skiptanna og hún fékk aðeins átta vikur til að undirbúa sig, en bara aðalpersónan var í 60 mismunandi atriðum. Dionne, leikin af Stacey Dash, var svo í 45, Ty, leikin af Brittany Murphy, var í 35 og svo þurfti að klæða Amber, sem var leikin af Elisa Donovan, og alla hina krakkana líka.

Clueless kom út árið 1995 og sló í gegn. Hún hefur fest sig í sessi sem költ-klassík og vitnisburður um tísku 10. áratugarins. MYND/IMDB