Blaðamaður hjá austurrískri sjónvarpsstöð tók viðtal með hljóðnema klæddan bananahýði við norsku hljómsveitina Subwoolfer, sem jú merkilegt nokk, syngur um úlfa sem nauðsynlega þurfa banana svo amma ljóðmælandans verði ekki étin.

Opnunarhátíð Eurovision fer nú fram þessa stundina í Venaria höllinni í úthverfi Tórínó. Fréttablaðið er á svæðinu og ræðir við keppendur, aðdáendur og færir lesendum ítalska menningu beint í æð.

Alþjóðlega pressan stóð lengi á hliðarlínu túrkis dregilsins á meðan hitaskúrir dundu á gestum. Þess á milli brutust sólargeislarnir fram og vermdu vanga og þurrkuðu upp hárgreiðslur og förðun sem var afrakstur margra klukkustunda vinnu.

Systurnar Sigga, Beta og Elín þurftu einmitt að vakna klukkan hálf sex í morgun til að mæta í förðun.

Ekki missa af nýjustu Eurovision fréttunum á samfélagsmiðlum Fréttablaðsins.