Jónas Reynir Gunnarsson, rithöfundur, hefur fengið ótal tölvupósta frá bensínstöðinni Orkunni síðustu níu ár, það var ekki fyrr en hann birti allar sólarsöguna á Twitter að Orkan hafði samband og lofaði honum að þeir yrðu ekki fleiri.

Sagan er löng og lygileg.

„Árið 2012 fór ég að fá kvittanir í tölvupósti frá Orkunni í hvert einasta skipti sem ókunnugur maður á Egilsstöðum tók bensín á bílinn sinn. Í fimmta skiptið sem þetta gerðist lét ég þjónustuverið vita í tölvupósti og fékk svar til baka um að ég hefði verið tekinn af skrá,“ segir Jónas á Twitter. Jónas býr í Fellabæ.

„Í sex ár var allt með kyrrum kjörum, þar til á 23.12.2018, þegar mér fóru aftur að berast kvittanir, stílaðar á sama mann. Ég gúglaði nafnið hans og uppgötvaði að netfangið hans var einum staf frá því að vera eins og netfangið mitt.“

Í það skiptið sendi Jónas erindið beint á hann:

"Sæll [...] Ég vildi láta þig vita af því að ég hef verið að fá bensínkvittanirnar þínar á gamla emailið mitt, sem er [...], væntanlega rangt skráð í Orkunni. Ég fann þitt email í símaskránni. Ekki að þetta hafi ollið mér neinu stórkostlegu ónæði! En nú veistu allavega af þessu."

Jónas fékk skilaboð um að netfangið væri ekki virkt og hélt hann áfram að fá tölvupósta frá Orkunni í hvert skipti sem maðurinn tankaði á bílinn.

Fékk símanúmerið

Í febrúar 2019 dró til tíðinda, Orkan skipti um kerfi við kvittanirnar og náði Jónas þá að finna símanúmerið hjá manninum.

„Maðurinn var jafn hissa og hann var áhugalaus um þetta "vandamál" - sem honum fannst alls ekki vera vandamál, því hann hafði enga þörf fyrir bensínkvittanir á stafrænu formi. Var þetta að trufla mig eitthvað? spurði maðurinn. Ég sagði nei, ég væri búinn að setja filter á emailið sem sendi það beint í ruslið, ég vildi bara fullvissa mig um að hann saknaði ekki þessara kvittana. Við ákváðum að láta þetta eiga sig og kvöddumst. En eftir þetta símtal hættu kvittanirnar að berast.“

Eftir þetta samtal hættu póstarnir að berast.

Minningarnar helltust yfir hann

Í mars síðastliðnum fóru póstarnir svo aftur að berast. „Neðst í póstinum er hlekkur: "Afskrá af póstlista." Ég smelli á hann. Síðan býður ekki upp á að setja inn netfang heldur kennitölu. Ég veit ekki kennitölu mannsins. Það eina sem ég veit er að líkindi upphafsstafa okkar fléttuðu líf okkar og netföng saman.“

„Ég slæ "http://orkan.is" í leitina í gmail og minningar hellast yfir mig, samskipti mín og þjónustufulltrúans fyrir 9 árum síðan, símtalið við manninn, og ég sé allt bensínið sem kvittanirnar bera vitni um brenna og fuðra upp, allt jarðefnaeldsneytið sem knýr líf okkar. Húsin sem hafa risið upp og hrunið niður síðan þetta allt byrjaði, fuglsegg klekjast út, fræ springa út í mold og teygja sig í átt að sólinni, reyk streyma upp í himininn, vélarstimpla hamast í risastóru skipi og þyrpingu af leðurblökum þekja himininn fyrir ofan mig.

Í gamla kerfinu voru kvittanirnar viðhengdar í pdf. Jónas opnaði eina þeirra og sá kennitöluna hjá manninum. „Loksins, eftir níu ár, skrái mig að fullu úr tilkynningakerfi Orkunnar.“

Síðasti pósturinn

Í dag kom svo enn einn tölvupósturinn.

„Megi Orkan vera með þér!" stendur í póstinum, og ég átta mig á því að Orkan mun alltaf vera með mér. Orkan er með stóru O-i og hún er eini guðinn sem er dýrkaður af mannfólkinu,“ segir Jónas.

Einn bensíntank í einu færumst við nær dauðanum, ég, þú og maðurinn á Egilsstöðum, og þegar við deyjum verðum við að Orku ofan í jörðinni. Maðkar nærast á okkur og risavaxin sveppakerfi dreifast um jörðina eins og æðakerfin í líffærunum og vöðvum okkar á meðan við lifðum. Dauðinn er ekki til. Það er bara Orkan og hún færist frá einum stað til annars, þar til öllu lýkur og allt byrjar aftur upp á nýtt, svarthol toga í sig stjörnukerfi og allt sem er til hverfur og birtist annars staðar, maður deyr og annar heldur áfram að taka bensín á bílinn hans.“

Jónas segir í samtali við Fréttablaðið að rúmum klukkutíma eftir færsluna á Twitter hafi borist póstur frá Orkunni þar sem þetta var harmað og lofað að póstarnir yrðu ekki fleiri.

Talsmaður Orkunnar sem Fréttablaðið ræddi við sagði að þetta hlytu að hafa verið mannleg mistök.