Dr. Aisha Khatib stökk til þegar flug­á­höfn í Qatar Airwa­ys flugi frá Qatar til Úganda kallaði eftir læknis­að­stoð. Hún elti á­höfnina og sá fljótt konu sem lág þvert yfir sætið sitt með hausinn að ganginum og fæturna að glugganum. Hún var að eiga barn.

Far­þegar höfðu hrúgast í kringum móðurina og barnið var nú þegar komið hálfa leiðina út. Khatib fékk hanska frá á­höfninni og hófst handa við að að­stoða. Hún sendi annan far­þega, sem reyndist vera hjúkrunar­fræðingur, að sækja fyrstu hjálpar kassa.

Í við­tali við út­varps­þáttinn As It Happens hjá CBC rifjar Khatib upp það sem hún sagði við hjúkrunar­fræðinginn. „Það ætti að vera fæðingar­sett hér. Ef ekki þá vantar mig klemmur. Mig vantar skæri. Ef við erum ekki með klemmur þá vantar mig reimar.“

Þegar hjúkrunar­fræðingurinn var farinn að sækja á­höldin hugsaði Khatib að henni vantaði senni­lega líka heitt vatn en mundi svo að það var bara eitt­hvað sem fólk biður um í bíó­myndum.

Ró­leg og ein­beitt

Móðirin var ró­leg og ein­beitt, að sögn Khatib, en mögu­lega hefur hún verið í hálf­gerðu losti. Þetta var ó­vænt fyrir þær báðar.

Khatib hafði aldrei áður tekið á móti barni í flug­vél og móðirin var að ferðast ein heim frá Sádí-Arabíu, þar sem hún hafði verið við vinnu.

Móðirin hafði kallað á á­hafnar­með­lim og kvartað undan þungum kvið­verkjum. Þau komust fljótt að því að hún væri með hríðir.

Tals­maður flug­fé­lagsins sagði í sam­tali við CityNews að á­höfnin fái þjálfun í því að takast á við neyðar­til­felli um borð, þar með talið að taka á móti börnum. Þá megi konur ekki fljúga eftir á­kveðið langa með­göngu.

Ríkis­stjórn Kanada segir að konur megi fljúga komnar allt að 36 vikur á leið ef með­gangan hefur gengið vel fyrir sig. Flest flug­fé­lög setja þó strangari reglur.

Nefnd í höfuðið á lækninum

Þegar barnið var fætt kom annar far­þegi og sagðist vera barna­læknir á vegum Lækna án landa­mæra. Hann tók við barninu og hugaði að því á meðan Khatib að­stoðaði móðurina og gekk úr skugga um að henni heilsaðist vel.

Khatib tók þá á móti barninu á ný, rétti móðurinni og til­kynnti henni að hún hafði eignast stelpu. Við það brustu út fagnaðar­læti far­þeganna.

Móðirin og barnið voru færð í við­skipta­far­rýmið til að þær hefðu meira pláss og gætu komið sér vel fyrir. Móðirin og læknirinn eru enn í sam­skiptum sín á milli og litla barnið fékk nafið Mirac­le Aisha, í höfuðið á Dr. Aisha Khatib.