Rit­höfundarnir Fríða Ís­berg og Dagur Hjartar­son bjóða bóka­unn­endum í út­gáfu­kok­teil í Iðnó í kvöld. Þar gefst gestum og gangandi færi á að næla sér í ein­tak af nýjustu verkum skáldanna, ljóða­bókina Leður­jakka­veður eftir Fríðu og skáld­söguna Við erum ekki morðingjar eftir Dag. Höfundarnir hafa haslað sér völl í bók­mennta­heiminum, á Ís­landi jafnt sem er­lendis, á síðustu árum og hafa hvor um sig komið að út­gáfu sex bókar­titla.

Tvö­falt út­gáfu­hóf

Töffarar bók­menntakreðsunar leiða þó ekki saman hesta sína í kvöld ein­göngu af bók­mennta­legum á­stæðum. „Það er erfitt að vera einn,“ segir Dagur í sam­tali við Frétta­blaðið. Höfundarnir sam­mælast um að það sé auð­veldara að halda út­gáfu­hóf þegar það eru tveir gest­gjafar. „Þá verður þetta líka minna eins og af­mælis­boð og meira eins og bók­mennta­við­burður,“ bætir Fríða við.

„Ég hef alveg stundum mætt í út­gáfu­hóf þar sem ég þekki ekki rit­höfundinn per­sónu­lega og liðið smá kjána­lega. En þegar það eru tveir höfundar að þá er auð­veldara að falla í fjöldann,“ segir Fríða.

„Við erum ekki morðingjar fjallar um unga konu sem skrifar bók sem leggur líf hennar í rúst," segir Dagur Hjartarson.

Hafa ekki lesið bækurnar

Skáldin munu lesa upp úr bókum sínum í kvöld á­samt því segja frá til­urð bókanna. Þau hafa þó enn ekki lesið bækur hvors annars. „Mér skilst að bókin hans Dags sé vel strúktúrað sam­tal milli fólks sem hefur átt í ein­hverjum deilum,“ segir Fríða í sam­tali við Frétta­blaðið. Þá efast hún ekki um að verkið verði fagur­fræði­legt meistara­verk.

Dagur segir bókina vissu­lega vera sam­tal milli fólks eða nánar til tekið tveggja manneskja. „Við erum ekki morðingjar fjallar um unga konu sem skrifar bók sem leggur líf hennar í rúst. Þetta er löng nótt, í henni eru leyndar­mál og af­hjúpanir,“ bætir Dagur við og játar því að bókin sé dá­lítið spennandi.

Fá­rán­leg sjálfs­með­vitund í gangi

Að­spurður segist Dagur telja að bók Fríðu fjalli um leður­jakka sem skeljar utan um mann­eskjum. „Stundum þurfa mann­eskjur skeljar, stundum ekki,“ segir Dagur. Hann treysti fáum jafn vel og Fríðu til að flytja sér þessa veður­spá.

Á­giskun Dags virðist hitta beint í mark, Fríða segir Leður­jakka­veður fjalla aðal­lega um tog­streituna milli þess að vera töff og að vera ber­skjölduð. „Þetta eru tvær hliðar af mér sem hata hvor aðra. Töffarinn hatar þegar ber­skjöldunin segir eitt­hvað og ber­skjöldunin hatar þegar töffarinn þegir. En kannski fjallar þessi bók líka bara um svið­setningu og þá fá­rán­legu sjálfs­með­vitund sem er í gangi í dag.“

Dagur og Fríða hvetja fólk til að mæta á þessa tvö­földu skemmtun í kvöld þar sem gestum gefst kostur á að kaupa bækurnar tvær á sér­stöku kynningar­verði. Auk þess verða drykkjar­föng og á­ritanir í boði fyrir þau sem mæta fyrst.

,,Leðurjakkaveður fjallar um togstreituna milli þess að vera töff og að vera berskjöldið," segir Fríða Ísberg.