Rithöfundarnir Fríða Ísberg og Dagur Hjartarson bjóða bókaunnendum í útgáfukokteil í Iðnó í kvöld. Þar gefst gestum og gangandi færi á að næla sér í eintak af nýjustu verkum skáldanna, ljóðabókina Leðurjakkaveður eftir Fríðu og skáldsöguna Við erum ekki morðingjar eftir Dag. Höfundarnir hafa haslað sér völl í bókmenntaheiminum, á Íslandi jafnt sem erlendis, á síðustu árum og hafa hvor um sig komið að útgáfu sex bókartitla.
Tvöfalt útgáfuhóf
Töffarar bókmenntakreðsunar leiða þó ekki saman hesta sína í kvöld eingöngu af bókmenntalegum ástæðum. „Það er erfitt að vera einn,“ segir Dagur í samtali við Fréttablaðið. Höfundarnir sammælast um að það sé auðveldara að halda útgáfuhóf þegar það eru tveir gestgjafar. „Þá verður þetta líka minna eins og afmælisboð og meira eins og bókmenntaviðburður,“ bætir Fríða við.
„Ég hef alveg stundum mætt í útgáfuhóf þar sem ég þekki ekki rithöfundinn persónulega og liðið smá kjánalega. En þegar það eru tveir höfundar að þá er auðveldara að falla í fjöldann,“ segir Fríða.

Hafa ekki lesið bækurnar
Skáldin munu lesa upp úr bókum sínum í kvöld ásamt því segja frá tilurð bókanna. Þau hafa þó enn ekki lesið bækur hvors annars. „Mér skilst að bókin hans Dags sé vel strúktúrað samtal milli fólks sem hefur átt í einhverjum deilum,“ segir Fríða í samtali við Fréttablaðið. Þá efast hún ekki um að verkið verði fagurfræðilegt meistaraverk.
Dagur segir bókina vissulega vera samtal milli fólks eða nánar til tekið tveggja manneskja. „Við erum ekki morðingjar fjallar um unga konu sem skrifar bók sem leggur líf hennar í rúst. Þetta er löng nótt, í henni eru leyndarmál og afhjúpanir,“ bætir Dagur við og játar því að bókin sé dálítið spennandi.
Fáránleg sjálfsmeðvitund í gangi
Aðspurður segist Dagur telja að bók Fríðu fjalli um leðurjakka sem skeljar utan um manneskjum. „Stundum þurfa manneskjur skeljar, stundum ekki,“ segir Dagur. Hann treysti fáum jafn vel og Fríðu til að flytja sér þessa veðurspá.
Ágiskun Dags virðist hitta beint í mark, Fríða segir Leðurjakkaveður fjalla aðallega um togstreituna milli þess að vera töff og að vera berskjölduð. „Þetta eru tvær hliðar af mér sem hata hvor aðra. Töffarinn hatar þegar berskjöldunin segir eitthvað og berskjöldunin hatar þegar töffarinn þegir. En kannski fjallar þessi bók líka bara um sviðsetningu og þá fáránlegu sjálfsmeðvitund sem er í gangi í dag.“
Dagur og Fríða hvetja fólk til að mæta á þessa tvöföldu skemmtun í kvöld þar sem gestum gefst kostur á að kaupa bækurnar tvær á sérstöku kynningarverði. Auk þess verða drykkjarföng og áritanir í boði fyrir þau sem mæta fyrst.
