„Allar dætur Bjarka, ásamt barnabörnum, óku norður til að upplifa þessa óvæntu endurkomu föður síns og heimamenn létu sig sannarlega ekki vanta og fögnuðu ákaft endurkomu Bjarkans,“ heldur Jakob áfram og bætir við að stappfullt hafi verið á Café Lyst og ýmsir þurft frá að hverfa.

Upphaflega stóð til að gleðin yrði í Lystigarði þeirra Akureyringa en þegar á reyndi lét sumarylurinn á sér standa og Bjarki söng því innandyra. Jakob segir skemmtilega tilviljun að Gylfi Ægisson hafi samið lagið í Lystigarðinum fyrir nákvæmlega hálfri öld.

„Og að sá lögreglumaður sem sendur hafði verið á staðinn til að fjarlægja þennan ölvaða mann með gítar skuli hafa verið ungur verðandi séra Pálmi Matthíasson sumarafleysingamaður gerir þetta enn þá skemmtilegra,“ segir Jakob, kominn á söguleg mið.

„Ekki síst í ljósi þess sem Gylfi segir sjálfur í ævisögu sinni að það sé Pálma að þakka að hann hafi fengið að klára lagið áður en honum var hent út úr garðinum og að það sé þessu lagi að þakka að hann komst „á kortið“ sem laga- og textahöfundur.

Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, og Katrín Sif Árnadóttir, varaþingmaður flokksins í Norðausturkjördæmi, stigu einnig á stokk sem og Álftagerðisbróðirinn Óskar Pétursson sem lét óvænt að sér kveða og fór að sögn Jakobs „með himinskautum í sannkölluðum hetjutenórsöng.“