Margrét H. Blöndal sýnir verk á sýningunni Liðamót /Ode to join í Listasafni Íslands. Margrét á langan feril að baki og hefur sýnt víða, bæði hér á landi og erlendis.

„Ég er að sýna teikningar sem eru gerðar með litadufti og olíu og þrívíð verk sem ég vann beint inn í salinn. Mig langaði til að teikningarnar og þrívíðu verkin hefðu jafnt vægi og yrðu um leið órjúfanlegur hluti salarins,“ segir Margrét. „Síðastliðið sumar fékk ég boð um að sýna hér og verkin eru unnin á því tímabili. Ég vildi hleypa ljósinu inn þannig að ég lét taka í burtu strúktúr sem byrgði fyrir glugga sýningarsalarins auk þess sem ég hreinsaði salinn til að skynja betur rýmið og umgjörð þess. Til að draga úr samhverfu salarins og til að hafa áhrif á hvernig hreyfingin á sér stað inni í honum setti ég tvo veggi. Ég er í eðli mínu myndhöggvari og höggmyndir verður að skoða frá öllum sjónarhornum og þessi sýning ýtir undir hreyfingu áhorfandans þar sem birtingarmyndir og samsetning verkanna breytist við hvert skref.“

Þörf til að tilheyra

Spurð um titil sýningarinnar, Liðamót, segir hún: „Það má segja að ég viði að mér efni og kóreógrafera verkin svo inn í rýmið sem ýmist er tvívíður flötur (pappír) eða sýningarsalurinn sjálfur. Á þessari sýningu, sem heitir Liðamót/Ode to join, er vísað til marglaga hreyfinga – annars vegar þeirra sem líða um á innri eða ytri sviðum tilverunnar – og hins vegar þess hreyfiafls er myndast þegar ólíkum einingum lýstur saman. Við höfum öll þörf til að tilheyra einhverju og verkin á sýningunni breyta um lið eftir því hvaðan er horft á þau.”

Sjónræn tónföll

Í list sinni er Margrét greinilega knúin áfram af ákafri þörf til að skapa. Um það segir hún: „Ætli þetta sé ekki þörf til að búa til stillur úr allri óreiðunni í kringum okkur. Að grípa eitthvað af blæbrigðunum og gera þau sýnileg – einhvers konar sjónræn tónföll – og búa til kyrralífsmynd þar sem ríkir jafnvægi þótt því verði auðveldlega raskað.

Ég nálgast pappírinn eins og hljóðfæraleikari þar sem ásláttur pensilsins stjórnar því sem dregið er upp. Stundum er hann stríður, stundum rétt snertir hann yfirborðið, stundum taktfastur. Þrívíðu verkin verða hins vegar til í rýminu í uppsetningarferlinu sjálfu sem viðbragð við því og teikningunum sem veljast inn. Það kom mér ánægjulega á óvart hvernig sum verkin pöruðu sig saman og skipuðu lið sem ég hefði aldrei getað séð fyrir en það er einmitt í þessu óvænta sem töfrarnir verða til.

Verkin eru tilvistarlegs eðlis og hafa lífið að viðfangsefni. Hreyfing er mér hugleikin vegna þess að við erum bara hér í örskamma stund og stöðnun jafngildir endalokum.“

Síðasti sýningardagur er 2. október.