Sýningin efni:viður stendur yfir í Hafnar­borg og er hluti af Hönnunar­Mars sem að þessu sinni fer fram 24.-28. júní. Unnur Mjöll S. Leifs­dóttir er sýningar­stjóri og valdi verkin á sýninguna. „Á þessari sýningu er góð blanda af hönnuðum og lista­fólki sem vinnur verk sín úr viði, hug­myndin er að tef la saman lista­fólki með mis­munandi bak­grunn og ó­líkar á­herslur í mynd­máli,“ segir Unnur.

„Þegar gestir ganga inn í salinn geta þeir andað að sér sýningunni í einu vet­fangi, en ef litið er nær, sér fólk að hvert lista­verk er í raun heimur út af fyrir sig.“ Verkin eru saman í stóru rými sem Unnur segir að hafi á tíma­bili verið reynt að skipta upp.

„Við settum upp lausa veggi til að hólfa verkin af, en það gekk ekki, það varð of mikil spenna í rýminu. Þannig að við á­kváðum að leyfa rýminu að vera mjög opið. Þannig verður til sam­tal á milli verkanna og um leið eru töfrar í hverju verki. Öll verkin á sýningunni búa yfir sér­stöku að­drátta­raf li, á­ferð og lögun, sem mann langar nær ó­sjálf­rátt til að strjúka og elta með fingrunum, en það er að sjálf­sögðu bannað, þannig að fólk verður að láta sér nægja að horfa.“

Fréttablaðið/Anton Brink
Listafólk með mismunandi bakgrunn og ólíkar áherslur sýnir verk sín á sýningu í Hafnarborg Hafnarfirði. Þar eru öll verkin unnin úr viði.
Fréttablaðið/Anton Brink

Ævin­týra­legur bekkur

Meðal verka má nefna verk­færa­kassa úr viði eftir Sindra Leifs­son. „Hann tók trjá­bol í sundur, sem sagt opnaði hann lang­sum og þar sjáum við hólf sem mótar fyrir exi. Sindri setti litlar hengjur á bolinn, þannig að verkið er fal­legur, skringi­legur skúlptúr, sem er hálf­partinn að þykjast vera verk­færa­kassi,“ segir Unnur.

Um verk Rósu Gísla­dóttur segir Unnur: „Þetta verk sá ég í Berg Con­temporary og heillaðist mjög af því. Þetta eru tveir turnar, annar stendur og hinn liggur, og þeir mynda geo­metrísk spíral­form í anda rúss­neska kons­trúktíf­ismans. Efnis­notkunin er lát­laus og verkið unnið úr sköftum úr renndum harð­viði. Verkið teiknar svo skugga á gólfið og að­eins upp á vegg.” Unn­dór Egill Jóns­son á ein­stak­lega fal­legt verk á sýningunni, sem er bekkur.

„Hann var að vinna nýtt verk þegar ég hafði sam­band við hann og vildi setja það á sýninguna. Þetta er bekkur úr birki og evrópskri hnotu, þar sem hönnun og mynd­list sam­einast full­kom­lega. Unn­dór vann viðinn mikið á á­kveðnum stöðum, en aðrir hlutar verksins fá að njóta sín á náttúru­legan hátt. Þessi bekkur er eins og áður ó­þekkt skepna og má í­mynda sér að fæturnir sem eru úr ís­lensku birki séu upp­stoppaðir aftur­fætur af dýri,“ segir Unnur.

Skemmtilegur verkfærakassi eftir Sindra Leifsson.
Fréttablaðið/Anton Brink

Skógar­ilmur mætir gestum

Verk Aðal­heiðar Ey­steins­dóttur sýnir börn sem hún hefur unnið úr viði. „Ég er ný­komin úr fæðingar­or­lofi og tók þetta verk í fangið,“ segir Unnur.

„Þegar maður horfir á það fer maður bæði á fal­lega staði og ó­hugnan­lega. Þetta er ó­þægi­legt lista­verk en um leið svo hug­ljúft, maður hugsar til flótta­fólks, til mis­munandi að­stæðna ein­stak­linga og einnig til þess krafta­verks sem barns­fæðing er.“

Á sýningunni er ilmsturta sem unnin er af Nor­dic Angan, hönnunar­teymi. Gengið er inn í rými þar sem ilmsturtan stendur og skógar­ilmur um­lykur mann. Vitan­lega yndis­leg upp­lifun. Guð­jón Ketils­son er í hópi þeirra lista­manna sem á verk á sýningunni, en það sýnir fjall og spegil­mynd þess.

Hann var á svæðinu og lýsir verki sínu fyrir blaða­manni: „Ég sá fyrir mér spegil­slétt vatn og fjall sem speglast í því. Bar­áttan við að gera þetta verk fólst í því að skapa spegil­mynd. Það var dá­lítil stærð­fræði.“

Þessi á­huga­verða og fal­lega sýning stendur til 23. ágúst.

Verk Aðalheiðar Eysteinsdóttur sýnir börn sem hún hefur unnið úr viði.
Fréttablaðið/Anton Brink
Fréttablaðið/Anton Brink
Fréttablaðið/Anton Brink
Fréttablaðið/Anton Brink