Sýningin efni:viður stendur yfir í Hafnarborg og er hluti af HönnunarMars sem að þessu sinni fer fram 24.-28. júní. Unnur Mjöll S. Leifsdóttir er sýningarstjóri og valdi verkin á sýninguna. „Á þessari sýningu er góð blanda af hönnuðum og listafólki sem vinnur verk sín úr viði, hugmyndin er að tef la saman listafólki með mismunandi bakgrunn og ólíkar áherslur í myndmáli,“ segir Unnur.
„Þegar gestir ganga inn í salinn geta þeir andað að sér sýningunni í einu vetfangi, en ef litið er nær, sér fólk að hvert listaverk er í raun heimur út af fyrir sig.“ Verkin eru saman í stóru rými sem Unnur segir að hafi á tímabili verið reynt að skipta upp.
„Við settum upp lausa veggi til að hólfa verkin af, en það gekk ekki, það varð of mikil spenna í rýminu. Þannig að við ákváðum að leyfa rýminu að vera mjög opið. Þannig verður til samtal á milli verkanna og um leið eru töfrar í hverju verki. Öll verkin á sýningunni búa yfir sérstöku aðdráttaraf li, áferð og lögun, sem mann langar nær ósjálfrátt til að strjúka og elta með fingrunum, en það er að sjálfsögðu bannað, þannig að fólk verður að láta sér nægja að horfa.“


Ævintýralegur bekkur
Meðal verka má nefna verkfærakassa úr viði eftir Sindra Leifsson. „Hann tók trjábol í sundur, sem sagt opnaði hann langsum og þar sjáum við hólf sem mótar fyrir exi. Sindri setti litlar hengjur á bolinn, þannig að verkið er fallegur, skringilegur skúlptúr, sem er hálfpartinn að þykjast vera verkfærakassi,“ segir Unnur.
Um verk Rósu Gísladóttur segir Unnur: „Þetta verk sá ég í Berg Contemporary og heillaðist mjög af því. Þetta eru tveir turnar, annar stendur og hinn liggur, og þeir mynda geometrísk spíralform í anda rússneska konstrúktífismans. Efnisnotkunin er látlaus og verkið unnið úr sköftum úr renndum harðviði. Verkið teiknar svo skugga á gólfið og aðeins upp á vegg.” Unndór Egill Jónsson á einstaklega fallegt verk á sýningunni, sem er bekkur.
„Hann var að vinna nýtt verk þegar ég hafði samband við hann og vildi setja það á sýninguna. Þetta er bekkur úr birki og evrópskri hnotu, þar sem hönnun og myndlist sameinast fullkomlega. Unndór vann viðinn mikið á ákveðnum stöðum, en aðrir hlutar verksins fá að njóta sín á náttúrulegan hátt. Þessi bekkur er eins og áður óþekkt skepna og má ímynda sér að fæturnir sem eru úr íslensku birki séu uppstoppaðir afturfætur af dýri,“ segir Unnur.

Skógarilmur mætir gestum
Verk Aðalheiðar Eysteinsdóttur sýnir börn sem hún hefur unnið úr viði. „Ég er nýkomin úr fæðingarorlofi og tók þetta verk í fangið,“ segir Unnur.
„Þegar maður horfir á það fer maður bæði á fallega staði og óhugnanlega. Þetta er óþægilegt listaverk en um leið svo hugljúft, maður hugsar til flóttafólks, til mismunandi aðstæðna einstaklinga og einnig til þess kraftaverks sem barnsfæðing er.“
Á sýningunni er ilmsturta sem unnin er af Nordic Angan, hönnunarteymi. Gengið er inn í rými þar sem ilmsturtan stendur og skógarilmur umlykur mann. Vitanlega yndisleg upplifun. Guðjón Ketilsson er í hópi þeirra listamanna sem á verk á sýningunni, en það sýnir fjall og spegilmynd þess.
Hann var á svæðinu og lýsir verki sínu fyrir blaðamanni: „Ég sá fyrir mér spegilslétt vatn og fjall sem speglast í því. Baráttan við að gera þetta verk fólst í því að skapa spegilmynd. Það var dálítil stærðfræði.“
Þessi áhugaverða og fallega sýning stendur til 23. ágúst.



