Kristín hefur dálæti á því að elda og baka og bera fram kræsingar á fallegan og aðlaðandi hátt, hvort sem það er innan- eða utandyra. Henni er margt fleira til lista lagt en lögfræðistörf og það á svo sannarlega við þegar kemur að bakstri og matreiðslu.

Þegar kemur að hefðum og matarvenjum um páskana, eru einhverjar slíkar sem þú heldur í?

„Ég vil njóta páskahátíðarinnar með fjölskyldunni, njóta þess í bland að vera úti að gera eitthvað skemmtilegt og inni að dunda mér við að elda og baka. Ég á mér bara eina páskahefð og hún er að fá klassískt Nóa-páskaegg og ískalda mjólk í morgunmat í rúmið á páskadag.“

Páskakræsingar fyrir útivistina

Við fengum Kristínu til að deila með okkur uppskriftum að kræsingum sem henni finnst eiga vel við að njóta um páskana. „Ég ákvað að gefa lesendum þessar tvær uppskriftir þar sem þær eiga það sameiginlegt að vera einfaldar í undirbúningi og kalla á lágmarks uppvask. Það er mjög hentugt ef vel viðrar og maður vill vera meira úti en inni. Ekki spillir fyrir að þær eru mjög meðfærilegar, hægt að gera þær hvar sem einfalda eldunaraðstöðu og bakarofn má finna og líka kippa afurðunum með í útivistina.“

Fallegt og páskalegt hjá Kristínu. Hún gefur lesendum uppskriftir sem eflaust eiga eftir að kæta bragðlaukana.

Kristín töfraði fram þessar girnilegu amerísku pönnukökur og bar fram með frumlegum og girnilegum hætti. „Uppskriftina að pönnukökunum fékk ég úr bókinni Stóra Disney matreiðslubókin, en þetta er langbesta ameríska pönnukökuuppskriftin sem ég hef prófað. Í þetta skiptið hafði ég pönnukökurnar litlar, staflaði þeim upp og setti lemoncurd, ber og mintublað ofan á. Mér finnst þetta falleg framsetning á borði en hún er líka hentug í gönguferðina og gaman að draga pönnukökupinna upp úr bakpokanum fyrir göngufélagana.“

Listin að baka með hjartanu er eitt af því sem Kristín hefur elskað að gera. „Risa-smákakan er uppskrift sem ég geri oft en setti hana núna í páskabúning með því að nota litlu súkkulaðieggin. Venjulega baka ég hana bara í steypujárnspönnunni sem ég geri deigið í. Það er algjör snilld, fljótlegt, töff og lágmarksfrágangur. Til hátíðarbrigða bakaði ég hana núna í hjartaforminu mínu.

Kristín Benediktsdóttir, dósent við Lagadeild HÍ, gaf mér formið þegar ég fékk hæstaréttarlögmannsréttindin árið 2005. Mjög óhefðbundin gjöf við það tilefni, sem mér þykir mjög vænt um, og ég þori að fullyrða að engin gjöf gefin í hrl.-gjöf í gegnum tíðina hafi verið notuð meira en þetta fallega form.“

Amerískar pönnukökur

2 egg

4 msk. sykur

1 tsk. vanilludropar

2 tsk. lyftiduft

2 bollar hveiti

3 ½ – 4 dl mjólk

Þeytið eggin og sykurinn vel saman. Bætið vanilludropum við, lyftidufti og svo hveitinu. Hrærið vel. Bætið svo mjólkinni við í smá skömmtum þar til hæfilegri þykkt er náð. Deigið á að vera í þykkara lagi en samt þannig að hægt sé að hella því á pönnuna. Bræðið smá smjör á pönnu og bakið pönnukökurnar á hvorri hlið þar til þær eru fallegar á litinn. Berið fram með því sem hugurinn girnist, berjum, hlynsírópi, rjóma, sultu, osti, hverju því sem freistar ykkar.

Risa-smákaka

1 bolli smjör

1 bolli púðursykur

2 egg

1 tsk. vanilludropar

2 ½ bolli hveiti

1 tsk. matarsódi

½ tsk. salt

100 g saxað súkkulaði (ljóst, dökkt og/eða hvítt)

100 g lítil sælgætisegg

Hitið ofninn í 180°C á undir- og yfirhita. Bræðið smjörið í steypujárnspönnu (eða potti/pönnu sem er við hendina). Bætið púðursykri við og hrærið stöðugt í þar til sykurinn er bráðinn. Takið pönnuna af hellunni og látið kólna í 10-15 mínútur. Hrærið þá eggjunum saman við ásamt vanilludropum og salti. Bætið hveitinu við í nokkrum skömmtum og hrærið vel á milli. Að síðustu er söxuðu súkkulaðinu bætt við. Sléttið úr deiginu á pönnunni eða setjið í form. Stingið súkkulaðieggjunum ofan í deigið.

Bakið í 20-25 mínútur í miðjum ofni eða þar til kantarnir eru fallega gylltir, en kakan má vera aðeins blaut í miðjunni.