Uppskeruhátíð magadansmeyja, 1001 nótt dansveisla, verður haldin í Tjarnarbíói, sunnudaginn 26. maí kl. 16.00. Þarna sameinast fjölbreyttir hópar sem dansa magadans á höfuðborgarsvæðinu, ásamt skemmtilegum gestaatriðum úr öðrum dansstílum eins og til dæmis bollywood, salsa og jallabina.

Þær Jóhanna Jónasdóttir, Kristína Berman og Margrét Erla Maack standa á bak við sýninguna, en þær tvær fyrrnefndu eru saman í magadanshópnum Ilmur af Arabíu, sem Jóhanna stofnaði árið 2009.

Kvenlegt heilbrigði

Jóhanna lýsir magadansi sem listrænum tjáningarmáta og einnig sem mikilli líkamsrækt. „Í grunninn þá eru þetta æfingar sem ýta undir kvenlegt heilbrigði og búningarnir sem við sýnum í draga fram þennan kynþokka hjá konum sem fólk tengir oft við magadans. Ein aðalástæðan fyrir því að konur halda oft mjög lengi áfram að dansa magadans eftir að þær byrja, er að dansinn styrkir þær og veitir þeim aukið sjálfstraust til að vera öruggar um eigin kvenlegu fegurð og kynþokka.“

Fallegir búningar sem fanga augað

Eitt af því sem einkennir magadansinn er litríkur og fallegur klæðnaður dansaranna. „Þetta er náttúrulega bara stórkostleg glimmergleði og búningarnir draga fram allt það fallega í konum í öllum stærðum og gerðum.“

Jóhanna segir að til að byrja með séu konur stundum óöruggar með að sýna bert hold í magadansinum. „Maður þarf aðeins að þora að bera á sér magann og leyfa öxlum og handleggjum að vera svolítið berum, en það er alveg ótrúlegt frelsi sem felst í því að finna að það er fullkomlega allt í lagi. Allar erum við bara eins og við erum og það er þessi innri útgeislun sem er númer eitt, tvö og þrjú.“

Magadans getur dregið fram mikla útgeislun og sjálfsöryggi hjá konum. Ljósmyndari, Ester Eyjólfsdóttir

Það getur verið erfitt að finna þessa búninga hér á landi en Jóhanna reynir að nýta tækifærið þegar hún er erlendis að kaupa þá þar, en hún hefur farið til Tyrklands og fann fallega búninga og búnað þar. Einnig er auðvelt að finna ýmsan búnað eins og slæður, búninga og magadansbelti á netinu, og nýtir Jóhanna það sér óspart.

Nú verður sýningin sett upp í þriðja sinn, með sömu hugsjón og áður, að færa fólk nær hvert öðru, auka samvinnu danshópa á Íslandi og að styrkja dansflóruna.

„Hugmyndin kviknaði fyrir þremur árum, um að efna til sameiginlegrar dansveislu þeirra hópa sem æfa víðsvegar um höfuðborgarsvæðið, hver í sínu horni, og búa til meiri samkennd í dansarasamfélaginu. Okkur langaði að gefa öllum tækifæri til að koma saman og sýna hver fyrir aðra, þá gætu allir séð hvað hinir væru að gera og í leiðinni byggjum við til sameiginlegan vettvang þar sem við gætum sýnt dansinn og komið þessu stórkostlega fyrirbæri sem magadansinn er á framfæri,“ segir Jóhanna Jónas, leikkona og magadanskennari.


Hægt er að kaupa miða á 1001 Nótt Dansveislu á tix.is

Litríkur og fallegur klæðnaður er stór partur af magadansi. myndir/Ester Eyjólfsdóttir