Wilde var mikill framúrstefnumaður í hugsunarhætti og áhrifa hans gætti og hefur raunar gætt meðal ótal listamanna allar götur síðan. Hann þótti einstaklega hnyttinn og varð fljótt afar eftirsóttur og áberandi í félags- og skemmtanalífi Lundúna eftir að hafa flust þangað seint á áttunda áratug 19. aldar að loknu námi við Oxford.

Vaxandi frægð og umtal

Árið 1881 var óperan Patience eftir Gilbert og Sullivan frumsýnd en verkið var háðsádeila á fagurfræðistefnuna sem í hugum margra var samofin Wilde. Fagurfræðistefnan (Aesthetic Movement) gekk út á að hafna siðferðisboðskap í bókmenntum, tónlist og öðrum listformum. Áherslan var fremur á fagurfræðina og einkennisorðin voru „list fyrir listarinnar sakir“.

Ein af aðalpersónunum var bersýnilega byggð á Wilde og gerði það að verkum að nafn hans varð enn þekktara. Wilde, sem á þessum tíma glímdi við fjárhagsörðugleika, var þá boðið að flytja fyrirlestra í Bandaríkjunum á sama tíma og Patience var sett upp í New York. Þegar hann kom til New York með skipi í desember 1881 lét hann eftirfarandi orð falla við tollafgreiðslumanninn: „Ég hef ekkert að tilkynna nema snilli mína.“

Wilde sló í gegn í Bandaríkjunum, dvaldi þar um skeið og heimsótti einnig Kanada. Hann flutti svo til Frakklands í stuttan tíma en sneri aftur til Englands vegna áhuga síns á konu að nafni Constance Lloyd sem var dóttir efnaðs lögfræðings frá London. Talið er að fjárhagssjónarmið hafi haft áhrif á ráðahaginn og að Wilde hafi hugsanlega viljað kvænast til þess að þagga niður þrálátan orðróm um samkynhneigð.

Oscar Wilde þótti og þykir enn einstaklega hnyttinn og heillandi.

Þau giftust árið 1884 og bjuggu í fjögurra hæða húsi í London sem Wilde eyddi miklum fjármunum í að láta endurgera. Wilde var iðinn við skrif, vinsældir hans fóru stöðugt vaxandi og um skeið var mikið um gestagang á heimilinu. Hjónin eignuðust tvo drengi, Cyril og Vyvyan. Árið 1887 tók hann við ritstjórn á kventímaritinu „Lady’s World: A Magazine of Fashion and Society“ sem hann umbreytti og endurnefndi „Woman’s World“. Þar fjallaði hann um ýmis málefni ásamt Constance en hún var líka rithöfundur og skrifaði fyrir tímaritið.

Klæðaburður Wilde vakti líkt og hann mikla athygli en hann klæddist oft háum sokkum, hnébuxum, loðfeldum og flauelsslám. Hann sagði að fatnaður ætti að vera fallegur en þó hagnýtur. Klæðnaðurinn sem þótti einkennandi fyrir fagurfræðihreyfinguna bar merki afturhvarfs til tímans fyrir iðnbyltingu. Þröngu lífstykkin sem einkenndu hið heftandi Viktoríutímabil áttu ekki upp á pallborðið. Sjálfur Wilde talaði um fatnað af því tagi sem ofríki eða harðstjórn (e. tyranny).

Upphafið að endinum

Samhliða vaxandi vinsældum eyddi Wilde sífellt meiri tíma utan heimilisins og þá helst í félagsskap ungra fallegra manna. Árið 1891 kynntist hann svo ungum manni, lávarðinum Alfred Douglas, en samband þeirra átti eftir að leggja líf Wilde í rúst. Faðir Alfred, aðalsmaðurinn John Douglas, var afar ósáttur við samband þeirra og dreifði andstyggilegum orðrómum um Wilde sem leiddi til þess að Wilde ákvað að lögsækja hann fyrir meiðyrði. Úr urðu alræmd réttarhöld þar sem verjendur Douglas ásökuðu Wilde um kynvillu og fór það svo að Douglas var fundinn saklaus. Wilde var dæmdur til að greiða lögfræðikostnað Douglas og var svo sjálfur fundinn sekur um ósiðsemi og samkynhneigð (e. sodomy) og dæmdur til tveggja ára fangelsisvistar. Að henni lokinni neyddist hann til að yfirgefa England og hrökklaðist til Frakklands. Þar drakk hann sífellt meira áfengi þrátt fyrir mikinn heilsubrest og lést svo árið 1900. Jafnvel á dánarbeðinum var hann hnyttinn en hann lét hafa eftir sér að hann stæði í banvænu einvígi við ljótt veggfóðrið sem prýddi veggina og að annað hvort þeirra þyrfti að fara.

Oscar Wilde í grískum búningi árið 1877 en hann þótti skara fram úr við þýðingar á grískum og latneskum textum.

Meðferðin sem Wilde hlaut á Englandi þótti afar smánarleg og var mikið fjallað um örlög hans. Í tímaritinu Iðunn er til dæmis að finna stórskemmtilega grein um Oscar Wilde eftir Guðmund Kamban frá árinu 1929 þar sem hann lýsir Wilde á eftirminnilegan og lifandi hátt.

„Oscar Wilde var hár maður vexti, augun grá, fjörmikil og fögur með afbrigðum; hárið mikið og með jörpum ljóma. Hann fann mikið til útlits síns, og þótti vel, þegar honum var líkt við rómverskan keisara frá hnignunaröldinni. Í búnaði var hann allra manna glæsilegastur, og ekki laus við að vera of íburðarsamur, over-dressed. Þó að hann hafi samið sum beztu rit sín á furðulega skömmum tíma, var hann makráður að eðlisfari. Hann var tiginmannlega stiltur í viðmóti og hafði hljómblíðan málróm, sem jók áhrif þess, sem mest var töfrandi í fari hans: mál hans, andríki þess og hugvit. Hann taldi það sjálfur sína æðstu gáfu: að tala. Hann sagði einu sinni: „Ég gaf listinni hæfileika mína, lífinu guðdómsneistann.““