Lína er þrítug að aldri, lærður förðunarfræðingur, stílisti og einkaþjálfari og kann vel að flétta þessum fræðum saman með góðri útkomu. Útgeislun hennar smitar frá sér og hún kann svo sannarlega að laða að sér fólk með sinni fallegu framkomu. Einnig rekur hún sitt eigið fyrirtæki og nýtur sín á þeim vettvangi.

Skósjúk eins og amma var

„Ég vinn við samfélagsmiðla og rek eigið fyrirtæki. Ég er að hanna og selja æfingafatnað og hversdagsfatnað undir vörumerkinu Define The Line Sport. Ég er einnig að læra viðskiptafræði með áherslu á markaðsmál og samfélagsmiðla.“

Listrænir hæfileikar Línu Birgittu skína í gegnum hönnun hennar og koma sér vel í öllu því sem hún tekur sér fyrir hendur, meðal annars í vinnu hennar við samfélagsmiðla. Lína Birgitta spáir mikið í allt sem tengist tísku á einn eða annan hátt.

„Mitt helsta áhugamál er að ferðast og allt sem tengist tísku. Ég hef lengi haft áhuga á fötum, skóm og fylgihlutum en ætli mitt helsta áhugamál í þeim efnum séu ekki skór í dag. Það má segja að ég sé skó-sjúk eins og amma mín var.“

„Ef þig langar að klæðast einhverju, gerðu það,“ segir Lína Birgitta.

Vill ekki sjá þröng föt í dag

Lína segist ávallt hafa haft skoðun á því hvernig fötum hún vilji klæðast.

„Það má segja að ég hafi alltaf haft skoðun á þeim fötum sem ég hef viljað vera í. En það hefur mikil breyting átt sér stað á fatavali mínu á skömmum tíma. Ég vil ekki sjá þröng föt í dag!“

Hvernig myndir þú lýsa fatastíl þínum?

„Afslappaður, þægilegur og töff. Mér finnst mjög mikilvægt að klæðast því sem manni finnst þægilegt og fílar sig í, annars ber maður sig illa.“

Lína Birgitta elskar að vera í víðu að ofan og þrengra að neðan.

„Ég elska „halter-neck“ snið á bolum og skyrtum, það fer mér extra vel.“

Lína Birgitta vill að sér líði vel í fatnaðinum og að hann þrengi ekki að en um leið sé hann smart. Hún er hrifin af fylgihlutum og hér toppa fylgihlutir heildarútlitið, sólgleraugun og veskið frá Louis Vuitton setja punktinn yfir i-ið.

Dolfallinn aðdáandi Louis Vuitton og Victoriu Beckham

Þegar Lína Birgitta er spurð hvort hún eigi sína uppáhalds flík í dag stendur ekki á svari.

„Í augnablikinu er það nýjasta peysan frá Define The Line Sport. Hún er bæði kósí og mjög töff. Síðan eru það sneakers-skórnir mínir frá Alexander McQueen og Dolce&Gabbana, þeir eru geggjaðir við allt.“

Áttu þinn uppáhalds hönnuð?

„Ég er dolfallinn Louis Vuitton aðdáandi og lít mikið upp til Victoriu Beckham.“

Þau tískuvörumerki sem heilla Línu Birgittu mest eru Louis Vuitton, Alexander McQueen og Balenciaga.

„Hvítir strigaskór með þykkum/grófum botni. Ég fæ ekki nóg af þeim.“

Heillast mest af hvítum strigaskóm með þykkum botni

Þegar kemur að litavali, fylgir þú tískustraumunum hverju sinni eða áttu þér þína uppáhalds liti sem þér finnst klæða þig best?

„Ég er mjög beisik þegar kemur að litavali. Ég elska svartan, gráan, hvítan og brúnan. Þessir litir eru alltaf beisik og maður getur poppað þá upp með áberandi fylgihlutum í lit.“

Gallabuxur og strigaskór koma sterkt inn hjá Línu Birgittu og víðar opnar kápur undirstrika frelsið.

Hvernig myndir þú lýsa skótískunni sem þú heillast helst af?

„Hvítir strigaskór með þykkum/grófum botni. Ég fæ ekki nóg af þeim.“

Þeir fylgihlutir sem Línu Birgittu finnst vera ómissandi í dag eru fallegt veski, góður trefill og sólgleraugu. Hún er dugleg að poppa klæðnað sinn upp og klára heildarútlitið með þessum fylgihlutum og sólgleraugun gera mikið og setja punktinn yfir i-ið.

Þegar kemur að því að klæða sig finnst Línu Birgittu mikilvægt að hafa það í huga að það eru engar reglur.

„Ef þig langar að klæðast einhverju, gerðu það!“

V-hálsmál gerir mikið fyrir stílinn og hálsmenið nýtur sín vel. Kasmírbrún kápan á vel við ljósa og dökka liti.