Granóladrottingin Þorbjörg Marínósdóttir, best þekkt sem Tobba Marínós, lenti í heldur óvenjulegum aðstæðum um helgina þegar hún braut klósettsetuna sína og lenti ofan í klósettinu. Tobba fór yfir atvikið í þættinum Ísland vaknar á K100 í morgun.

Tobba hafði nýlokið sóttkví í kjallaranum þegar atvikið átti sér stað, notaði hún tækifærið til að lakka hurðarnar og glugga.

„Svo líða þrír dagar og þá lendir besta vinkona mín sem var með mér í þessari sóttkví aftur í sóttkví. Svo hún flytur í kjallarann. Og ég er alltaf að mála gluggana svo hún má bara vera inn í einu herbergi,“ sagði Tobba í þættinum.

Setan splundraðist

„Svo er ég niðri um helgina og er að mála baðherbergisgluggann og ég stend uppi á klósettsetunni á meðan ég er að lakka gluggann. Þetta er svona harðplast og ég greinilega halla öllum þunganum í annan fótinn sem er á miðri setunni sem fer ekki betur en svo að hún brotnar ekki. Nei. Hún splundrast.“

Nágrannakona kom að henni buxnalausri

Tobba segir að hún hafi fengið mikið högg við fallið og að brotin úr klósettsetunni hafi orðið eins og hnífar. Hún hafi því verið nokkuð lemstruð eftir þetta. „Því ef þú bara opnar klósettið þá er ekki gert ráð fyrir tveimur fótum þarna ofan í,“ sagði hún.

„Ég náttúrulega öskra bara þarna ofan í – verð pissublaut í fæturnar. Og fíflið vinkona mín situr bara þarna á gólfinu og hlær.“ Þá hafi nágrannakona hennar kom að henni buxnalausri eftir atvikið. „Ég var bara á brókinni og í málningarskyrtu.“