Jóhannes starfar sem sérfræðingur í samskiptalausnum hjá Advania og mun hlaupa tíu kílómetra í maraþoninu. „Ég er nýorðinn fertugur og er að taka þátt í fjórða sinn í maraþoninu. Þetta er í annað sinn sem ég hleyp tíu kílómetra en hin tvö skiptin hljóp ég hálfmaraþon,“ segir Jóhannes, sem er uppalinn Siglfirðingur, hálfur Grikki og búsettur í Hafnarfirði með konu sinni og tveimur dætrum, sjö og tíu ára.

Hér má sjá Jóhannes Björn með konu sinni og dætrum.

Katrín Sunna er átta ára og greindist með krabbamein í fyrrahaust. Hún er einn harðasti nagli sem ég hef kynnst og hefur háð ofurhetjulega baráttu við þennan illvíga sjúkdóm.

Hleypur til styrktar SKB og Katrínu Sunnu

Jóhannes hleypur til styrktar SKB og er liðsmaður í liðinu Vinir og fjölskylda Katrínar Sunnu. „Ég hef þekkt Katrínu Sunnu síðan hún fæddist, en hún er dóttir góðra vina sem búa í sömu götu í Setberginu. Katrín Sunna er átta ára og greindist með krabbamein í fyrrahaust. Hún er einn harðasti nagli sem ég hef kynnst og hefur háð ofurhetjulega baráttu við þennan illvíga sjúkdóm. Það eru rétt um þrjátíu metrar á milli húsanna og því hef ég fylgst nokkuð náið með og reynt að hjálpa eins og hægt er. Hugrekkið og styrkurinn sem Katrín Sunna hefur sýnt í gegnum allt þetta langa og stranga ferli hefur hreint út sagt verið ótrúlegur.“

Foreldrar Katrínar Sunnu eru einnig miklir hlauparar og munu einnig hlaupa fyrir málstaðinn í sama liði ásamt fleiri vinum og vandamönnum. „Ég veit að SKB hefur staðið vel við bakið á Katrínu Sunnu og fjölskyldu hennar í gegnum allt ferlið og ég hvet öll til að kíkja á hópinn og styrkja liðsfélagana. Þetta er mikilvægt málefni, þó svo það greinist blessunarlega ekki mörg börn með krabbamein á Íslandi.“

Versta treyja sem hugsast getur

Jóhannes lætur tíu kílómetra hlaupið ekki nægja. „Ég hef áður hlaupið í maraþoninu fyrir ýmis málefni, en núna hleyp ég fyrir málefni sem stendur mér einstaklega nærri. Ég velti því fyrir mér hvað væri sniðugt að gera til að hvetja fólk til að heita á mig.“

Í hlaupinu mun Jóhannes klæðast því sem hann nefnir „verstu fótboltatreyju sem hann getur hugsað sér“, það er, Liverpool-treyju. „Ég lofaði þessu ef ég næði að safna meira en 100.000 krónum. Nú er söfnunin komin yfir það markmið svo ég neyðist víst til að kaupa mér Liverpool-treyju,“ segir Jóhannes og dæsir. Jóhannes hefur að sögn verið harður Manchester United aðdáandi frá því hann man eftir sér. „Ég veit sko fátt verra en að horfa upp á Liverpool sigra United. Hvað þá í félagsskap púllaravina minna.“

Hugmyndin um að hlaupa í Liverpool-treyju kom til Jóhannesar þegar hann var úti að hlaupa. „Frá því í byrjun Covid hóf ég að stunda útihlaup af kappi, bara til þess að halda geðheilsunni. Ég hleyp núna allt árið um kring og tek alltaf 10 kílómetra á þriðjudögum, spretti á fimmtudögum og svo 15-20 kílómetra hlaup á laugardögum. Ætli ég taki ekki eitt stutt og rólegt hlaup í maraþonvikunni til að hita mig upp.“

Þrepaskipt kvöl

„Ég bar hugmyndina um Liverpool-treyjuna undir vin minn, pabba hennar Katrínar Sunnu, sem er einmitt harður Liverpool-stuðningsmaður og bróðir hans spilaði meðal annars með varaliði Liverpool. Honum leist vel á þessa hugmynd og þá var ekki aftur snúið.“ Jóhannes hefur enn fremur lofað því að ef hann nær að safna yfir 110.000 kr. muni hann hlaupa alla tíu kílómetrana með „You’ll Never Walk Alone“, stuðningslag Liverpool, í eyrunum. „Ég náði 100.000 króna markmiðinu á einum sólarhring svo ég á alveg von á því að ná upp í næsta markmið. Markmiðið er að hlaupa þetta á undir 45 mínútum, því þá þarf ég bara að hlusta á lagið fimmtán sinnum. Ég trúi því að lagið muni alla vega veita mér kraft til að klára snemma. Þetta verður heilmikil þrekraun og ætli ég verði ekki snöggur að kasta frá mér heyrnartólunum þegar ég næ í mark,“ segir Jóhannes og hlær. „Ég hafði líka hugsað mér að hlaupa hálft maraþon. Síðast fór ég það á klukkutíma og 48 mínútum, og ég er í enn betra formi núna. En ég held ég gæti bara alls ekki afborið það að hlusta á lagið svo lengi, svo tíu kílómetrarnir urðu fyrir valinu,“ segir Jóhannes.

Hvað hlustarðu annars á almennt við hlaup?

„Ég hlusta á hlaðvörp og alls kyns tónlist, allt frá þungarokki yfir í danstónlist. Það getur verið Rammstein eða Radiohead, Robyn eða Metallica, mér nokk sama, bara svo lengi sem það er með góðu „bíti“ og leyfir mér að detta í „sónið“ við hlaupin.“

Hér er Jóhannes á hlaupum uppi á fjalli.

Ef söfnunin fer svo yfir 200.000 krónur þá lagði einhver til að ég léti húðflúra „You’ll Never Walk Alone“ á kroppinn. Mér þykir það fulllangt gengið. En hver veit, kannski fyrir réttu upphæðina?

Liverpool-húðflúr komi til greina

Jóhannes er með fleiri þrepaskipt markmið á hlaupastyrkssíðunni sinni, en þar má nefna að ef söfnunin fer yfir 125.000 krónur gerist hann „Full kit wanker“ og hleypur í fullum skrúða í Liverpool-stuttbuxum og sokkum í stíl við treyjuna. Fari upphæðin yfir 150.000 krónur mun Jóhannes kyssa Liverpool-merkið hjá öllum ljósmyndurum á leiðinni og þegar hann kemur í mark. „Ég vil hvetja öll til þess að styrkja gott málefni og heita á hlaupara Reykjavíkurmaraþonsins. Ég get mælt sérstaklega með því fyrir Liverpool-aðdáendur, sem finnst gaman að sjá Manchester-fylgjendur kveljast, að heita á mig. Því meiri upphæð sem safnast, því meira mun ég kveljast í þessar 45 mínútur,“ segir Jóhannes.

En hvað á að gera við treyjuna eða búninginn þegar hlaupinu lýkur? Á að halda brennu?

„Það er reyndar ekki svo slæm hugmynd, en þar sem pabbi hennar Katrínar Sunnu er mikill Liverpool-stuðningsmaður þá geri ég ráð fyrir að gefa honum treyjuna. Ég verð að minnsta kosti fljótur að losa mig við hana. Ef söfnunin fer svo yfir 200.000 krónur þá lagði einhver til að ég léti húðflúra „You’ll Never Walk Alone“ á kroppinn. Mér þykir það fulllangt gengið. En hver veit, kannski fyrir réttu upphæðina?“ segir Jóhannes og hlær. ■