„Við Rúnar höfum alla tíð hreyft okkur mikið. Ég æfði fótbolta í mörg ár og hann æfði skíði. Við hjónin höfum verið saman í golfi og förum mikið á skíði. Á síðasta ári varð ég hins vegar að taka því rólega því ég fór í hnéaðgerð og í kjölfarið mátti ég ekki reyna mikið á hnéð. Um áramótin fannst mér þó kominn tími til að fara af stað aftur og við Rúnar ákváðum að ganga 1.000 km árið 2021, sem eru um 3 km á dag. Við förum út að ganga daglega og látum veðrið aldrei stoppa okkur,“ segir María, sem vinnur á skrifstofunni hjá Minjavernd.

„Við byrjuðum á að ganga á jafnsléttu í hverfinu okkar en við búum í Mosfellsbæ og þar er fjöldinn allur af góðum gönguleiðum. Við höfum líka farið Álftaneshringinn, Gróttuhringinn og Búrfellsgjána, gengið um Elliðárdalinn og í kringum Vífilsstaðavatn, svo eitthvað sé nefnt, en þetta eru allt skemmtilegar gönguleiðir,“ segir María.

Eftir að hún fór að styrkjast í hnénu fóru þau hjón að ganga á fellin í Mosfellsdalnum en þar er búið að stika gönguleiðir upp á topp. „Við göngum oftast á Úlfarsfell, Mosfell, Reykjafell, Helgufell, Reykjaborg, Grímannsfell og Æsustaðafjall. Við erum tvisvar búin að ganga að eldgosinu, fyrst þegar það var nýbyrjað að gjósa og svo síðar þegar það var búið að laga leiðina að því. Svo höfum við gengið nokkrum sinnum á Esjuna. Mér finnst þetta allt skemmtilegar og hæfilega erfiðar gönguleiðir. Þegar komið er upp á fjallstopp er yndislegt að horfa yfir landið og njóta í góðu veðri. Ein af mínum uppáhaldsgöngum er upp á Reykjafell, þaðan yfir á Æsustaðafjall og loks niður í Skammadal, en þar er þyrping skemmtilegra og skrautlegra húsa sem gaman er að skoða,“ segir María, sem fylgist með lengd hverrar göngu í gegnum smáforritið Steps í símanum. „Það telur bæði skref og kílómetra. Núna erum við komin upp í 666 km, svo ég reikna með að við verðum búin að ná markmiðinu í haust. Við erum líka í golfi og hver hringur er um 6-8 km en við tökum það ekki með í þessa tölu.“

María nefnir að þau hjón séu heppin með vini og vandamenn, sem einnig stundi göngur. „Við höfum gengið mikið með vinahópum úr ýmsum áttum. Félagsskapurinn er frábær og skiptir ekki minna máli en göngurnar sjálfar. Það hefur líka verið hressandi andlega í kórónuveirufaraldrinum að hitta fólk og ganga saman. Um helgar eru göngurnar lengri en á virkum dögum og þá gerum við meira úr þessu og fáum okkur gjarnan kaffi með göngufélögum okkar. Þessar göngur hafa í raun verið algjör lífsbjörg í faraldrinum,“ segir hún.

Hreyfingin í forgang

María segir lítið mál að koma gönguferðum inn í daglega rútínu. „Um leið og við komum heim úr vinnunni reimum við á okkur gönguskóna og förum út. Þetta er í forgangi hjá okkur. Stundum tökum við lítinn hring um hverfið en okkur finnst skipta máli að fara út og fá ferskt loft eftir vinnudaginn. Mér finnst líka hvetjandi að hafa markmið til að stefna að. Það ýtir okkur af stað. Við plönum ekki sérstaklega hvert við göngum á virkum dögum og förum bara þangað sem okkur langar hverju sinni en við plönum helgargöngur með nokkurra daga fyrirvara.“

Spurð hvort hún finni mun á sér eftir að þau fóru að stunda reglulegar göngur segir María að svo sé. „Ég er orðin miklu betri í hnénu, hef meira þrek og úthald og hef styrkst mikið frá áramótum. Þetta hefur líka þau áhrif að ég hugsa meira um mataræðið. Ég hef sjálfkrafa minnkað sykurinn og óhollustuna og hugsa meira um hvað ég set ofan í mig til að fá góða orku,“ segir María.

Í sumar ætla þau að fara hringinn í kringum landið og nota tækifærið til að kanna nýjar gönguleiðir. „Við stefnum á að ganga Leggjabrjót með góðum vinum. Svo ætlum við í eina göngu sem hefur lengi verið á dagskrá, eða frá Súðavík yfir í Arnardal, þar sem fjölskyldan á sumarhús. Við hlökkum mikið til að láta loksins verða að því.“