Hópur vísindamanna við tækniháskólann í Michigan hefur þróað tæki sem gæti hjálpað fólki að móta drauma sína. Tækið heitir Dormio og samanstendur af armbandi sem kortleggur svefnmynstur og snjallforriti, sem notar upptökur til að stinga upp á viðfangsefni drauma. Í nýlegri könnun sögðust 67% þeirra sem Dormio sagði að „hugsa um tré“ hafa dreymt tré. Business Insider fjallaði nýverið um tækið.

Tæknifræðingurinn Tomás Vega hefur verið að þróa Dormio ásamt öðrum vísindamönnum og þeir prófuðu tækið á 50 manns í sumar. Niðurstöður þeirra voru birtar í vísindatímaritinu Consciousness and Cognition, sem fjallar um málefni tengd meðvitund og hugsun. Þær gefa til kynna að Dormio geti í raun og veru fengið fólk til að dreyma um það sem það vill.

Trélaga bílar og töfralæknar

Dormio samanstendur af tveimur hlutum. Annars vegar snjallforriti sem getur spilað og tekið upp hljóð og hins vegar armbandi sem festist utan um úlnlið, vísifingur og löngutöng. Tækið fylgist með hjartslætti notandans, stöðu fingra hans og öðrum merkjum til að kortleggja svefnmynstrið.

Tækið fer í gang þegar notandinn er á fyrsta stigi svefnsins. Á því stigi getur fólk dreymt, en það getur líka heyrt í umhverfi sínu og er ekki djúpt sokkið í drauma. Dr. Adam Haar Horowitz, aðalrannsakandinn á bak við þessa nýlegu könnun, segir að þetta hugarástand sé sveigjanlegt og margbreytilegt.

Rannsóknir á Dormio gefa til kynna að tækið getið hjálpað fólki að stjórna því hvað það dreymir um. Það þýðir að fólk gæti mögulega notað drauma á meðvitaðan hátt.

Fyrir rannsóknina voru þátttakendur fyrst látnir taka upp sína eigin rödd og segja „mundu að hugsa um tré“. Þegar þátttakendur voru að búa sig undir svefn spilaði Dormio upptökuna og svo aftur þegar tækið greindi að þátttakendurnir væru komnir inn á fyrsta stig svefns. Eftir skamma stund vakti tækið svo þátttakendur með skilaboðunum „segðu mér hvað þú varst að hugsa um“ og þá lýsti viðkomandi draumnum sínum.

Dormio fór svo í aftur gegnum þessi skilaboð nokkrum sinnum, en hver þátttakandi stjórnaði hve oft var farið í gegnum þessa hringrás.

Í lokin sögðust 67% þátttakenda hafa dreymt tré, en smáatriðin voru mjög ólík, til dæmis dreymdi einn bíl sem var eins og tré í laginu. Rannsakendur tóku líka eftir því að draumar þátttakenda virtust verða furðulegri í hvert skipti sem forritið vakti þá. Einn þátttakandi sagði til dæmis frá því að hafa fyrst einfaldlega dreymt alls kyns tré en í fimmta skiptið sem viðkomandi var vakinn sagðist hann hafa dreymt töfralækni sem sat með honum undir tré og sagði honum að fara til Suður-Ameríku.

Gæti aukið ýmsa hæfni

Það eru til rannsóknir sem gefa til kynna að fólk sem æfir eitthvað í draumum sínum geti bætt hæfni sína í því í vöku. Í rannsókn frá 2015 var til dæmis komist að þeirri niðurstöðu að fólk sem gerði ákveðna æfingu í skírdreymi – draumi þar sem það var sjálfsmeðvitað og við stjórnvölinn – bætti sig töluvert meira í þessari æfingu en fólk sem gerði hana ekki í svefni. Aðrar rannsóknir hafa sýnt að það að dreyma á öðru tungumáli geti hjálpað fólki að bæta sig í því tungumáli.

Tækið fylgist með hjartslætti notandans, stöðu fingra hans og öðrum merkjum til að kortleggja svefnmynstrið. MYNDIR/OSCAR ROSELLO/MIT

Margir vilja líka halda því fram að það að dreyma hluti geti hjálpað til við að finna skapandi lausnir. Menn eins og Albert Einstein, Thomas Edison og Salvador Dalí notuðu drauma til að mynda óspart til að hjálpa sér við viðfangsefni sín. Horowitz segir að þó að Dormio geti ekki framkallað skírdreymi hjá öllum geti það ýtt draumum í gagnlega átt og þannig hjálpað fólki að nýta svefn til að finna lausnir við vandamálum.

Dormio tækið er ekki enn komið á markað, en vonir standa til að þessar rannsóknir leiði til nýrrar tækni sem verði seld á almennum markaði. Aðrir áhrifamiklir háskólar eru líka að rannsaka hvaða möguleika Dormio býður upp á, eins og Harvard, Duke og Chicago-háskólinn. Bráðlega gæti fólk því farið að nýta tímann sem það er meðvitundarlaust á mjög meðvitaðan hátt. Það eru allir í sífelldri tímaþröng, þannig að hver myndi segja nei við að geta nýtt svefnstundirnar í meira en bara hvíld?