Ólöf er fædd og uppalin í Skagafirði, en fluttist til Reykjavíkur fyrir nokkrum árum til þess að stunda nám við Háskóla Íslands, þaðan sem hún er útskrifaður hagfræðingur með meistarapróf í umhverfis- og auðlindafræði.

„Ég á tvö börn með sambýlismanni mínum og tíkina Svölu, sem er elsta barnið mitt. Ég hef verið náttúrubarn frá því að ég man eftir mér, var á kafi í hestum á meðan ég bjó fyrir norðan og er núna komin með náttúruhlaupabakteríuna.“

Leiðarvísir fyrirtækja

„Ég tók þátt í því að stofna Greenfo í nóvember 2020 því ég sá spennandi tækifæri til þess að hafa áhrif á umhverfisvitund fyrirtækja og einstaklinga og í leiðinni að skila heiminum betri til komandi kynslóða. Markmiðið okkar er að hjálpa fyrirtækjum að taka ákvarðanir út frá hagkvæmni reksturs og ávinningi í þágu umhverfisins og samfélagsins.“

Ólöf segir hugmyndina að fyrirtækinu hafa kviknað þegar hún vann í Landsvirkjun. „Ég og Stefán Kári, meðstofnandi Greenfo, unnum saman í umhverfisdeild Landsvirkjunar þar sem við komum að gerð loftslagsbókhalds, aðgerðaráætlunar í loftslagsmálum, sjálfbærniskýrslu o.fl. Við þá vinnu fannst okkur vanta hugbúnað sem myndi halda utan um öll gögn sem tengjast umhverfisáhrifum fyrirtækja á einfaldan hátt. Hugmyndin þróaðist síðan áfram í að nýta upplýsingarnar, sem eru nú þegar til hjá fyrirtækjum, til þess að reikna og kortleggja kolefnisspor og setja fram markvissar aðgerðir til þess að draga úr því. Við stefnum á að búa til hugbúnað sem er leiðarvísir fyrir fyrirtæki í átt að sjálfbærni.“

Menntun Ólafar hefur reynst vel í þessari vinnu. „Þessi samblanda af hagfræði og umhverfis- og auðlindafræði nýtist mér mjög vel. Umræðan um sjálfbærni og umhverfismál er oft og tíðum tvískipt, sumir sjá eingöngu efnahagsleg áhrif aðgerða á meðan aðrir hugsa lítið um þá hlið og horfa eingöngu á umhverfisáhrif. Ég hef góðan skilning á hvort tveggja og tel mikilvægt að líta til beggja hliða þegar skoðað er í hvaða aðgerðir á að fara.“

Fyrirmynd í sjálfbærni

Ólöf segir þátttöku fyrirtækja í loftslagsmálum sérstaklega áríðandi. „Allir þurfa að leggja sitt af mörkum ef framtíðar kynslóðir eiga að fá að búa við svipuð náttúrugæði og við höfum gert hingað til, það á við um einstaklinga jafnt og fyrirtæki. Fyrirtækin leika lykilhlutverk í því að gefa einstaklingum tækifæri á því að breyta sínum neysluvenjum. Einstaklingar búa við takmarkaðar upplýsingar sem neytendur og hver og einn getur ekki kynnt sér í þaula starfsemi allra þeirra fyrirtækja sem hann ákveður að eiga viðskipti við, það væri of tímafrekt, en hægt og rólega verða þeir meðvitaðri um sjálfbærni og að auðlindir okkar á þessari jörð eru takmarkaðar.“

Nálgun fyrirtækja á þessi mál hafi þá enn fremur bein áhrif á velgengni fyrirtækja. „Það má heldur ekki gleyma því að neytendur eru jafnframt starfsfólk fyrirtækjanna, svo að fyrirtæki sem ætla sér að halda velli á samkeppnismarkaði og keppast um hæft starfsfólk þurfa að hafa þessi mál í forgrunni. Við sjáum það að fólk velur ekki bara vinnu út af laununum, þó að þau skipti máli, en margir eru einnig farnir að velja vinnustaði sem þeir geta verið stoltir af því að vinna hjá. Það er því miður staðan að fæst fyrirtæki þekkja áhrifin af sínum rekstri. Umhverfisáhrif fyrirtækja virða ekki landamæri og oft eiga yfir 80% umhverfisáhrifa sér stað annars staðar í virðiskeðjunni og eru því falin fyrir stjórnendum jafnt sem neytendum.“

„Við erum að þróa hugbúnað sem auðveldar fyrirtækjum að kortleggja umhverfisáhrif frá allri virðiskeðjunni sinni. Með lausninni okkar munu fyrirtæki m.a. geta kortlagt kolefnisspor sitt, mengun, áhrif á líffræðilegan fjölbreytileika og vatnsnotkun niður á þau lönd sem áhrifin eiga sér stað í. Þegar fyrirtæki vita hvar neikvæð áhrif af starfsemi þeirra liggur skapast tækifæri fyrir þau til þess að draga úr þeim á markvissan hátt. Fyrirtæki geta þá fylgst með árangri í rauntíma, spáð fyrir um losun og forgangsraðað verkefnum út frá kostnaði og umhverfisáhrifum. Markmið okkar hjá Greenfo er að hjálpa öðrum að gera betur í þessum málum, en eitt af gildum okkar er að vera fyrirmynd í sjálfbærni og gera sjálf það sem við ráðleggjum öðrum, við veljum til dæmis vörur og þjónustu út frá þessum viðmiðum.“

Ólöf telur að kröfur um ábyrgð fyrirtækja muni færast í aukana í framtíðinni. „Ég held að samfélagsleg ábyrgð verði ekki síðri þáttur í rekstri fyrirtækja á komandi árum en rekstrarreikningurinn, þá sérstaklega loftslagsmálin. Það eru ekki lengur bara fjárfestar sem gera kröfur á fyrirtæki um arðsemi fjármagns, neytendur eru að taka við sér og ég sé þá ekki bremsa á næstunni. Það vilja flestir gera vel og draga úr sínum umhverfisáhrifum en hefur kannski vantað tæki, tól og þekkingu til þess.“