Eftir að Kolbrún Anna lauk prófi sem förðunarfræðingur frá Make-up Studio Hörpu Kára hefur hún haft í nógu að snúast og tekist á við mörg spennandi verkefni. Hún segir að frá unga aldri hafi förðun heillað hana.

„Alveg frá því að ég var krakki hef ég pælt mikið í allri útlitslegri umgjörð í kvikmyndum, auglýsingum og í raun flestu því sem fangar augað. Ég byrjaði ung að fikta í málningardótinu hennar mömmu til að reyna að herma eftir hinum ýmsu karakterum,“ segir Kolbrún Anna, sem hefur mest unnið í sjónvarpi.

„Ég vinn núna á förðunardeildinni hjá RÚV. Svo hef ég einnig tekið að mér að farða fyrir auglýsingar, ýmsa viðburði, myndaþætti, tónlistarmyndbönd og tískusýningar,“ greinir hún frá.

Kolbrún Anna segir grafísk form vera áberandi í augnförðun haustsins.

Augnblýantar í litum regnbogans

Nú þegar sumri er tekið að halla eru haustlitirnir í förðun farnir að streyma í verslanir. Þegar Kolbrún Anna er spurð hvaða litir verði vinsælir í haustförðuninni í ár segir hún að í raun sé enginn einn litur mest áberandi.

„Það virðist allt vera í tísku þegar kemur að litum um þessar mundir og það virðist ekki vera nein breyting þar á. Mikið er um augnblýanta í öllum regnbogans litum og grafísk form eru áberandi. Það er svo skemmtilegt að sjá fjölbreytileikann og tjáningarfrelsið þegar kemur að förðun,“ segir hún og bendir á að á sumrin sé frískleiki í fyrirrúmi og léttari farði meira áberandi en á veturna.

„Það er líka mjög fallegt að sjá freknur skína í gegn og leyfa frísklegri og sólkysstri húð að njóta sín. Á haustin er oft algengt að sjá dekkri varaliti og augnskugga í takti við skammdegið,“ segri Kolbrún Anna.

Kolbrún notar mest farða, sólarpúður, kinnalit, augnabrúnablýant, maskara, augnblýant og gloss.

Sólarvörn skyldueign

Þegar Kolbrún Anna er spurð hvað hún sé alltaf með í snyrtiveskinu sínu segir hún glettnislega að sennilega leynist þar allt of mikið af alls konar snyrtivörum og förðunarvörum.

„En það sem ég nota mest er farði, sólarpúður, kinnalitur, augnabrúnablýantur, maskari, augnblýantur og gloss. Sú snyrtivara sem ég gæti ekki verið án er klárlega sólarvörn. Ég nota sólarvörn á hverjum degi, allan ársins hring, og sé mikinn mun á húðinni eftir að ég tók mig á í þeim efnum. En sú förðunarvara sem mér finnst að mikilvægt að eiga er Chanel Water Tint, sem er í miklu uppáhaldi hjá mér. Um er að ræða virkilega léttan, gelkenndan og ljómandi farða,“ segir Kolbrún Anna. ■