Leikarinn Ahmed Best, sem þekktastur er fyrir hlutverk sitt sem hinn seinheppni Jar Jar Binks úr Star Wars forleiknum, opnar sig um lífsreynsluna sem fylgdi gífurlega neikvæðum móttökum við persónunni í einlægu viðtali á Youtube rásinni SoulPancake.

Tíst frá leikaranum í júlí á síðasta ári um reynslu sína og fyrirhugað sjálfsmorð vakti gífurlega athygli en við það tilefni birti hann mynd af sér og syni sínum á Brooklyn brúnni í New York. Í myndinni ræðir hann umrætt atvik.

„Ég tók níu ára gamlan son minn með mér til New York til þess að sýna honum borgina sem ég ólst upp í og elska. Við gistum í Brooklyn hverfinu og við gengum yfir Brooklyn brúna saman, sem var einn af mínum uppáhaldsstöðum í borginni. Að horfa á brúna hélt mér alltaf gangandi.

Þess vegna vildi ég ganga yfir brúna með syni mínum. Svo komum við að stað á brúnni sem ég hafði ekki séð í langan tíma. Sem var raunveruleg ástæða þess að ég hafði ekki gengið yfir brúna í átján ár. Það var staðurinn sem ég batt næstum því enda á líf mitt.“

Fannst hann ótrúlega heppinn áður en lífið breyttist í martröð

Best rekur svo ástæður þess að hann batt næstum enda á líf sitt til þeirrar reynslu sinnar að hafa leikið persónuna Jar Jar Binks í Star Wars: Phanton Menace árið 1999. „Ég stóð frammi fyrir umfjöllun sem lét mér líða eins og líf mitt væri búið. Ég hélt aldrei að slíkt gæti orðið að veruleika.“

Hann segir að hann hafi verið ótrúlega heppinn að hafa fengið hlutverkið en hátt settur starfsmaður hjá Lucasfilm hafi séð hann fyrir tilviljun í leikriti og sagt honum að prófa að fara í áheyrnarprufu sem gekk vel. Draumurinn hafi hins vegar verið fljótur að breytast í martröð. 

„Ég hef alltaf viljað vera leikari sem hverfur algjörlega inn í hlutverk sitt. Jar Jar var það sinnum hundrað. Ég gat bókstaflega horfið inn í Jar Jar og ég var ekki þar. Það sem gerir Jar Jar sérstakan frá öðrum tölvugerðum persónum er að þetta var fyrsti kóðinn sem var notaður fyrir tölvuteiknaðar persónur.

Það sögðu allir við mig, vá þú verður frægur! Og ég var 24 ára og svo spenntur fyrir framtíðinni. Svo kom myndin út og það var svo mikið hatur og eitur og reiði sem beindist að mér. Ég tók þessu mjög persónulega. Oft sagði fólk við mig að þetta snerist ekki um mig heldur persónuna. Þið eruð að tala um mig.“

Upplifði ótrúlega fordóma

Þá ræðir Best jafnframt hvað hann upplifði mikla fordóma sem svört manneskja í kjölfar hlutverksins sem Jar Jar og hafi verið smættaður á grundvelli útlits síns.

„Við stöndum alltaf frammi fyrir ákveðinni gagnrýni sem svart fólk. Ég var kallaður öllum fordómafullum heitum sem þú gætir ímyndað þér. Ég var bara 26 ára og einn, ekki með neinn stuðnings. Þegar ég gekk á Brooklyn brúna þennan tíma sá ég ekkert gott. 

Ég var bara þreyttur og fannst ég þreyttur á að þurfa að útskýra allt og verja verk mín. Ég vildi bara leika hlutverk og ég var örmagna. Ég gekk að endanum á brúnni og horfði niður. Það kom rosaleg vindhviða og feykti mér fram af en ég greip í brúnina. Ég hugsaði bara að ef ég hefði raunverulega viljað deyja hefði ég sleppt. En ég gerði það ekki. Tuttugu árum síðar stend ég þarna með syni mínum á sama stað,“ segir tárvotur Best í þessu magnaða viðtali sem má sjá hér að neðan.