Framleiðsla á Hollywood myndum gerist stundum hratt, raunar svo hratt að stundum þarf að taka lykilákvarðanir á stuttum tíma. Lykilákvarðanir líkt og hvaða leikarar fara með hvaða hlutverk og stundum er svo illa valið í hlutverk að það kemur niður á allri myndinni. 

Fréttablaðið tók saman tíu dæmi um leikara sem pössuðu ekki í hlutverk sín, út af mismunandi ástæðum, með hjálp kvikmyndavefsíðanna Goliath og Cheatsheet.

Vantar á listann: Baby born dúkka Bradley Cooper sem blekkti engan  

10.   Jake Gyllenhal í Prince of Persia: The Sands of Time (2010)
Kvikmyndin byggir á tölvuleik og fjallar um prinsinn af Persíu. Jake Gyllenhal kom sér í gott form en gat ekki bætt upp fyrir það að hann var aðeins of hvítur til þess að ganga upp sem prins frá miðausturlöndum. 

9. Denise Richards í The World Is Not Enough (1999) 

Richards fór með hlutverk kjarneðlisfræðingsins Christmas Jones í James Bond myndinni. Tókst ekki að selja hlutverkið og samband persónu hennar við James Bond var frekar vandræðalegt en þetta var hennar stærsta tækifæri á hvíta tjaldinu en ferillinn fór aldrei á flug.

8. Colin Farrell í Alexander (2004) 
Hollywood vinnur oft með frægar persónur úr hinni mannlegu veröld og Alexander virtist vera góð hugmynd á sínum tíma, hvað þá þegar Oliver Stone var fenginn til að leikstýra. Vandamálið var að í aðalhlutverki var leikari með sterkan írskan hreim sem náði ekki að negla hlutverkið. 

7. George Clooney í Batman and Robin (1997) 
Það á alls ekki að líkja neinu við lestarslys en ef maður myndi líkja einhverri mynd við lestarslys þá væri það þessi. Myndin var svo slæm að George Clooney sem fór með hlutverk Batman lýsti því ítrekað yfir að sér hefði liðið illa við tökur á myndinni og lofaði að endurtaka leikinn aldrei aftur.

6. Jesse Eisenberg í Batman v Superman: Dawn of Justice 
Jesse Eisenberg er frábær leikari en fann sig ekki í hlutverkinu sem Lex Luthor, sem er ekki endilega honum að kenna þar sem slæmt handrit hrjáði myndina og áætlanir Lex breyttust að því er virðist í hverri senu.

5. Halle Berry í Catwoman (2004)
Hræðileg mynd og má rífast um hvort það hafi verið Halle að kenna en leikkonunni leið augljóslega ekki vel í umræddu hlutverki í mynd sem fékk slæma dóma. 

4. Russell Crowe í Les Misérables (2012) 
Frábær söngleikjamynd sem Anne Hathaway fékk Óskarinn fyrir leik sinn í. Russell Crowe söng hins vegar ekki vel og viðurkenndi það sjálfur. 

3. Hayden Christiansen í Star Wars forleiknum (1999-2004) 
Star Wars forleikurinn varð flestum gífurleg vonbrigði og Christiansen fékk sennilega erfitt handrit til þess að vinna með.
En það var erfitt að trúa því að sú persóna sem Hayden blés lífi hafi að endingu orðið að hinum illræmda Svarthöfða. 

2. Kevin Costner í Robin Hood: Prince of Thieves (1991)  
Árið 1991 var Kevin Costner svo vinsæll að hann komst upp með allt.

Eða svona hér um bil. Robin Hood: Prince of Thieves er sennilega hans versta mynd en leikarinn nennti ekki einu sinni að þykjast hafa enskan hreim. 

1. Tom Cruise í Jack Reacher (2012) 
Tom Cruise er sennilega síðasta Hollywood stórstjarnan en það liggur við að hver einasta bíómynd sem kappinn snertir breytist í gull.

Hann þótti hins vegar afar einkennilegt val í hlutverk Jack Reacher og hefur verið tilkynnt að hann muni ekki koma til með að leika kappann aftur. Benda menn þar helst á að í bókaseríunni hafi persónan átt að vera þrekvaxinn, eitthvað sem Tom Cruise er alls ekki en hann er nokkuð lágvaxinn.