Árið 2018 er senn á enda og þá er ekki úr vegi að kíkja á það helsta sem bar upp á kvikmyndaárinu sem er að líða en í nýlegri færslu tók vefmiðillinn Mashable saman tíu bestu frammistöður dýra í bandarískum kvikmyndum auk þátta árið 2018. Hér að neðan má sjá dýrin sem valin voru og ljóst er að hundar og kettir eru nokkuð áberandi á listanum.

10. Enski fjárhundurinn Hot Dog í Riverdale


Hundurinn Hot Dog (í. Pylsa) gegndi stóru hlutverki í þriðju seríunni af þáttunum Riverdale sem finna má á Netflix en þar lét hann meðal annars ræna sér. 

9. Kettir Freddie Mercury í Bohemian Rhapsody


Kvikmyndin Bohemian Rhapsody sem fjallar um lífshlaup Queen söngvarans Freddie Mercury sló í gegn fyrr á árinu og þar kom í ljós gamalkunnug staðreynd um söngvarann, þá sú að hann elskar ketti. Kettirnir stóðu sig vel. 

8. Hundurinn Kelly í The Meg 


Kelly fer með hlutverk hundsins Pippin í hákarlamyndinni The Meg og einhvern veginn lifir persónan af árás risahákarls. Kelly sá um öll sín áhættuatriði sjálf og hefur atriði hennar ollið miklu rifrildi netverja um það af hverju og hvernig hún lifði af.

7. Ónefndur pelíkani úr Homecoming 


Nýjasta serían með Julia Roberts framleidd af Amazon Prime veitunni gæti hafa farið fram hjá einhverjum en pelíkaninn sem kemur í kynningarefni úr seríunni vekur mikla athygli greinarhöfunds sem fullyrðir að pelíkaninn hafi stolið nokkrum senum í þáttunum sjálfum.

6. Litli kettlingurinn í The Haunting of Hill House 


Litli kettlingurinn tekur þátt í rosalegri senu í þessum hryllingsþáttum Netflix og gerir það á unga aldri. Fær sérstakt lof fyrir þáttöku sína í kakkalakkaatriðinu víðfræga.

5. Hundurinn Charlie í A Star Is Born 


Stjarna fæddist raunverulega í umræddri mynd sem var gífurlega vinsæl á Íslandi margar vikur í röð. Tók þátt í átakanlegri senu sem allir sem hafa séð myndina ættu að kannast við. Þeir sem ekki hafa séð hana eru hvattir til að sjá hana og fylgjast með verðlaunaleik hundsins Charlie.

4. Sleðahundurinn Zeus í Dogs 


Sleðahundurinn Zeus bregður fyrir í öðrum þætti þessara Netflix þátta sem beinir sjónum sínum að sambandi hunda og manna. Á eina af bestu senum þáttanna þegar hann spjallar við eigandann sinn á Skype.

3. Kötturinn Salem í Chilling Adventures of Sabrina 


Netflix sería sem beðið var með mikilli eftirvæntingu. Þar fer kisan Salem með stórt hlutverk sem kisa Sabrinu þrátt fyrir að aðalleikonan hafi komist að því að hún var með kattarofnæmi. Átti sína bestu stund á frumsýningu þáttanna, þar sem hann gekk á rauða dreglinum og spókaði sig um og lét taka myndir af sér, að sjálfsögðu klæddur svörtu.

2. Kötturinn Townie í Can You Ever Forgive Me? 


Kötturinn fer með hlutverk gæludýrs rithöfundarins Lee Israel, kisans Jersey í þessari dramamynd með Melissu McCarthy í aðalhlutverki. Myndin kemur út snemma á árinu 2019 í Evrópu en aðalleikonan hefur meðal annars tjáð sig sjálf um leik kisans, sem hún segir hafa toppað sína eigin frammistöðu.

1. Hundurinn Olivia í Widows, Game Night og Insatiable 


Enginn hundur átti betra ár heldur en hundurinn Olivia en hún kom fram í Netflix þáttunum Insatiable, grínmyndinni Game Night og dramamyndinni Widows í leikstjórn Steve MQueen með Violu Davis í aðalhlutverki.