„Við bjuggumst eiginlega ekki við að vinna. Sigurinn kom okkur á óvart,“ segir Ragnar Þórhallsson úr hljómsveitinni Of Monsters and Men á þessum degi fyrir tíu árum eftir að hljómsveitin vann Músíktilraunir.

Það kvöldið var hljómsveitin skipuð af þeim Ragnari, Nönnu Bryndísi Hilmarsdóttur, Brynjari Leifssyni og Arnari Rósenkranz.

Í samtali við Fréttablaðið eftir sigurinn kom fram að Ragnar væri búinn að vera með hljómsveitinni frá síðustu Iceland Airwaves-hátíð en Arnar bættist við bandið tveimur vikum fyrir keppnina.

Eftir að hafa borið sigur úr bítum í Músíktilraunum bættust Kristján Páll Kristjánsson og Árni Guðjónsson við hljómsveitina. Árni átti eftir að yfirgafa bandið síðar.

Ungir meðlimir Of Monsters and Men sem áttu eftir að sigra heiminn
Mynd/Fréttablaðið

Í samtali við Fréttablaðið sagðist Ragnar vonast til þess að sigurinn myndi koma hljómsveitinni á framfæri.

„Ef við spilum rétt úr spilunum ættum við að geta nýtt okkur sigurinn vel,“ sagði Ragnar og sagði næst á dagskránni að semja nýja tónlist og gefa út plötu.

Óhætt er að segja að árangurinn hafi fram úr björtustu vonum en tveimur árum síðar fór fyrsta plata sveitarinnar, My Head Is an Animal í sjötta sæti bandaríska Billboard-listans.

Alls seldust 55 þúsund eintök af plötunni í Bandaríkjunum strax í fyrstu viku. Til samanburðar var poppdrottningin Madonna nýbúin að gefa út plötu og seldi 46 þúsund plötur í sömu viku.

Þá komst platan í þriðja sæti vinsældarlista iTunes og ofarlega á sölulista Amazon eftir að hún var gefin út í Bandaríkjunum.

Vinsældir hljómsveitarinnar rötuðu á forsíðu Fréttablaðsins
Mynd/Fréttablaðið

Næsta plata hljómsveitarinnar, Beneath the Skin, naut sömu vinsælda vestanhafs þar sem hún komst strax í þriðja sæti bandaríska Billboard-listans og seldust 61.000 eintök strax í fyrstu viku.

Í Kanada komst Beneath the Skin um tíma í fyrsta sæti Billboard-listans og í fjórða sæti í Ástralíu

Árið 2017 tilkynnti hljómsveitin að þriðja platan væri á leiðinni, Fever Dream sem var gefin út í fyrra. Sama ár var tilkynnt að hljómsveitin hefði verið fyrsta íslenska hljómsveitin sem næði þeim áfanga að lög þeirra höfðu verið spiluð í milljarð skipta.

Ragnar, Arnar, Nanna og Brynjar daginn eftir að hafa unnið Músíktilraunir
fréttablaðið/stefán

Í dag er hljómsveitin nýbúin að vera á tónleikaferðalagi um Asíu og Ástralíu og var áætlað að tónleikaferðalagið myndi halda áfram í Bandaríkjunum á næstu vikum en óvíst er hvað verður um þær áætlanir í ljósi útbreiðslu kórónaveirunnar.

Samkvæmt heimasíðu hljómsveitarinnar voru fjörutíu tónleikar framundan, þar á meðal á Lollapalooza og Sziget tónleikahátíðunum en næstu tónleikar eru áætlaðir 29. apríl næstkomandi í Raleigh, Norður-Karólínu.