Gerður Huld Arinbjarnardóttir, eigandi kynlífstækjaverslunarinnar Blush, ætlar að halda skákmót í versluninni 29. september næstkomandi. „Í ljósi nýjustu fregna úr skákheiminum, þeir tengja sem tengja,“ segir Gerður á léttum nótum í story á Instagram í dag: „Þetta verður mjög skemmtilegt.“

Málið sem Gerður vitnar til varðar ásakanir í garð stórmeistarans í skák, Hans Niemann, eftir að mótspilari hans, Magnus Carlsen, margfaldur heimsmeistari í skák, hætti þátttöku á Sinquefield-skákmótinu eftir að hafa tapað gegn honum.

Eftir keppnina tísti Carlsen og tjáði fylgjendum sínum að hann væri hættur keppni og túlkuðu margir að hann væri að saka Niemann um svindl.

Kenning fór af stað um Niemann að hann hafi verið með svokallað buttplug með titringi, eða fjarstýrt unaðstæki, í endaþarminum sem vitorðsmaður hans á að hafa gefið titring til að gefa honum upplýsingar um besta leikinn.

Sterkir skákmenn mæta til leiks

Aðspurð segir Karen Birgisdóttir, mannauðs- og verkefnisstjóri Blush, í samtali við Fréttablaðið að viðburðurinn hafi komið til eftir að Birkir Karl Sigurðsson, þáttastjórnandi hlaðvarpsins Chess After Dark, bar hugmyndina á borð í kjölfar frétta um uslann ytra.

„Okkur leist heldur betur vel á þessa hugmynd og við byrjuðum strax að skipuleggja,“ segir Karen.

„30 sterkustu skákmenn landsins hafa þegar þegið boð um þátttöku á mótinu. Almenn miðasala hefst í lok vikunnar,“ upplýsir Karen og bætir við að verðlaun verði veitt fyrir þrjú efstu sætin.

„Vinningarnir eru ekki af verri endanum. Það verða veitt verðlaun fyrir þrjú efstu sætin en sá sem sigrar fær 100.000 kr. gjafabréf hjá Blush, 50.000 kr. gjafabréf hjá PlayAir og 40.000 kr. gjafabréf hjá Sushi Social,“ segir hún.

Að sögn Karenar verða öll endaþarmstæki frá merkinu Svakom á afslætti þetta kvöld og eru þau þannig búin að hægt er að tengja flest þeirra við smáforrit í símanum og stjórna þeim úr hvaða fjarlægð sem er.

Tvö tæki sem þykja nokkuð vinsæl í þessum geira, Vick Neo og Iker.
Mynd/Samsett