Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir utanríkisráðherra, birti stöðuuppfærslu á Twitter í tilefni af degi Martin Luther King jr. í gær sem féll alls ekki í kramið hjá netverjum.

„„Endalok lífs okkar hefst þann dag sem við þegjum yfir málum sem skipta máli“ Viska Dr. Martin Luther King hefur alltaf sama vægi, sérstaklega á tímum þar sem grafið er undan grundvallaréttindum okkar, sem við töldum vera tryggð,“ skrifaði ráðherrann.

Tilvitnunin sem um ræðir er umorðun frá ræðu sem baráttumaðurinn flutti í borginni Selma í Alabama, daginn eftir blóðug átök við Edmund Pettus brúna.

Amelia Boynton, leiðtogi borgararréttindahreyfingarinnar í Selma, var barin af lögreglu þar til hún rotaðist í „bloody sunday“ átökunum.

Svo virðist sem ráðherrann taki alls ekki undir með ákvörðun sinnar eigin ríkisstjórnar um að herða sóttvarnaaðgerðir. Ákvörðun hennar að nota dag Martin Luther King jr. til að vekja athygli á skerðingu persónufrelsis í heimsfaraldri Covid, virðist hafa misboðið fólki. Af viðbrögðum netverja að dæma missti færslan algjörlega marks.

„Þú bara hentir í þetta og ýttir á send,“ skrifar Atli Viðar en aðrir tóku undir með honum að ráðherrann hefði frekar mátt sleppa því að tísta.

„Takk fyrir að berjast fyrir rétti okkar til að smita aðra,“ skrifar Öggu nokkur. Aðrir netverjar gagnrýndu ráðherrann fyrir að stilla upp baráttu svartra í Bandaríkjunum við hlið sóttvarnarráðstafana.

Þá tóku nokkrir upp á því að birta myndir sem gefa í skyn að færsla ráðherrans sé merki um menningarnám; þ.e. þegar hópur eða einstaklingur í yfirburðastöðu stelur menningu þeirra sem eru í minnihluta sér til hagsbóta.

Sumir tóku upp á því að birta sínar uppáhalds tilvitnanir eftir baráttumanninn.