Þýska hefðin hefur borist um heim allan og vinsældirnar aukast ár frá ári enda eru hnotubrjótar nú fáanlegir í margvíslegum útfærslum sem fólk safnar. Samkvæmt Google hefur spurningum um hnotubrjótinn fjölgað um 60% á síðustu fimm árum. Ekki nóg með það heldur á hnotubrjóturinn rétt tæplega 100 þúsund fylgjendur á Instagram.

Hnotubrjóturinn sem jólaskraut á sér langa og skemmtilega sögu. Sérstaklega var hann vinsæll í Þýskalandi þar sem hann kom á markað árið 1865. Þá tók þýskur trésmiður, Wilhelm Fuchtner, til við að handskera út hnotubrjóta í atvinnuskyni. Fyrirmyndina fékk hann úr bókinni Hnotubrjóturinn og músakóngurinn eftir þýska höfundinn E. T. A. Hoffmann sem skrifuð var árið 1816.

Jólalegir og fínir í glimmerklæðum. Tilbúnir að henda sér á diskóið.

Nokkrum árum síðar eða árið 1892 var hinn heimsfrægi ballett, Hnotubrjóturinn, sýndur á aðventu, sem leiddi til þess að hnotubrjótar tengdust jólum. Bolshoi ballettinn í Moskvu hefur gert Hnotubrjótinn að ógleymanlegri sviðsuppfærslu við tónlist Tsjaíkovskíj sem hann samdi sérstaklega fyrir þetta verk. Hnotubrjóturinn er eitt vinsælasta tónverk hans og ballettinn er sýndur á hverju ári fyrir jól um allan heim og hefur verið sérstaklega vinsæll í Bandaríkjum, þar sem meðal annarra hinn frægi San Francisco ballett hefur sett hann upp um jólin undir stjórn Helga Tómassonar.

Sagan byggir á sögunni Hnotubrjóturinn og músakóngurinn eftir Hoffmann.

Þarna kennir ýmissa grasa, kokkur, listamaður, skipstjóri og jólasveinn auk soldátans. Skemmtilega ólíkir.

Maria Stahlbaum fær hnotubrjót í jólagjöf, leikfang sem hún tekur ástfóstri við og fljótlega kynnist hún ævintýraheimi sem býr í honum. Hnotubrjóturinn lifnar við eftir að hafa unnið músakóng í bardaga og reynist þá vera manneskja í álögum. Í sögunni takast á góð og vönd öfl, draumar, vonir og þrár, sem börn hafa hlustað á yfir jólin í meira í tvær aldir.

Margir trúa því að hnotubrjóturinn sé tákn um kraft og styrk, verndi fólk frá illum öndum og sé boðberi gæfu og velvilja.

Rauðir og hvítir soldátar, kannski frá Danmörku. Ótrúlega flottir.

Í dag eru þessir fínu karlar, sem nýtast þó ekki til að brjóta hnetur, skreyttir duttlungafullum klæðnaði með glitrandi skarti. Þeir eru til í margvíslegum útfærslum og Bandaríkjamenn hafa gjarnan raðað þeim á arinhillur þar sem þeir gæta heimilisins um jólin.

Þá má geta þess að önnur svokölluð tískutrend fyrir þessi jól eru gamaldags keramíkjólatré með ljósum eins og sáust á heimilum á áttunda og níunda áratugnum. Sérfræðingar segja að jólin í ár eigi að vera frekar látlaus með heimagerðu góðgæti og kökum. Sem sagt að horfa til rólegri tíma í fortíðinni á COVID-tímum.

Þessir eru litlir og eiga heima sem jólaskraut á jólatrénu.
Dæmigerður hnotubrjótur en þó með ívið meiri glimmerskreytingu en venjulegir soldátar hafa á sér.
Svona bönd til að setja utan um jólapakkann eru svo vinsæl að þau seljast iðulega upp mjög fljótt.