Í sumum tilfellum er hálstau hluti af einkennisbúningi, í öðrum eru þau notuð sem skrautmunur, og í einstaka tilfellum getur það jafnvel jaðrað við pólitíska yfirlýsingu að skarta ekki bindi.

Tískukóngurinn Loðvík XIV.

Forfaðir hálsbindisins, sem við þekkjum flest vel í dag, er rekjanlegur aftur á sautjándu öld, þar sem króatískir málaliðar í franska hernum skörtuðu litlum, hefðbundnum, hnýttum hálsklútum sem nefndust kravat-klútar. Þessi framandi tíska vakti áhuga Parísarbúa sem þyrsti í nýja tískustrauma. Þessi nýja og spennandi tíska stimplaði sig rækilega inn í hefðarlífið þegar Loðvík fjórtándi byrjaði að ganga með kravat-klút upp úr 1646, þegar hann var einungis sjö ára. Stuttu síðar fór tískufyrirbærið eins og eldur í sinu um alla Evrópu. Bæði menn og konur kepptust við að binda upp fínofna blúnduklúta eftir kúnstarinnar reglum í slaufur og fallega knúta.

Upp úr 1715 fór svo að bera á nýrri tísku í hálstaui. Komu þá fram svokallaðir stokkar og á hugtakið við meðal annars um leðurkraga sem reimaður er saman að aftan. Hermenn skörtuðu þessum krögum til að sýna að þeir bæru höfuðið hátt, en að auki veitti kraginn nokkra vörn fyrir stórar slagæðar í hálsinum gegn byssustingsárásum.

Bindið kemur til sögunnar

Á sama tíma var enn mikill áhugi fyrir því hvernig binda skyldi kravat-klúta sem leiddi af sér blómlega bóka- og bæklingaútgáfu, um hinar ýmsu leiðir til kravat-bindinga. Árið 1818 var gefin út Neckclothitania, sem var handrit með teiknuðu kennsluefni um fjórtán leiðir til þess að binda kravat-klút. Þetta er alla jafna talið fyrsta ritið sem notar orðið „bindi“ í tengslum við hálstau.

Paul McCartney, John Lennon, George Harrison og Ringo Starr eru flottir með mjóbindin sín í kringum 1962.

Með iðnbyltingunni eða upp úr 1820 jókst krafan um þægilegri, einfaldari og endingarbetri bindi. Fólk vildi hálstau sem voru þægileg og entust út vinnudaginn. Hálsbindin voru því hönnuð til að vera lengri og grennri og væri auðvelt að binda saman án þess að þau losnuðu í tíma og ótíma. Þessi tegund hálsbindis er enn þann dag í dag vinsælasta hálstauið.

Langsdorfinn mætir á svæðið

Um 1926 fann bindagerðarmaðurinn Jesse Langsdorf upp nýja aðferð við að klippa bindisefnið á ská, á móti því hvernig efnistrefjarnar liggja og sauma bindið saman í þremur pörtum. Þessi tækni jók teygjanleika bindisins og sá til þess að bindið hélt betur formi sínu. Síðan þá eru flest bindi svokölluð „Langsdorf“-bindi.

Fyrir síðari heimsstyrjöld var bindatískan styttri en hún er í dag, að hluta til vegna þess að buxur voru hærra sniðnar. Auknar vinsældir jakkavesta gerðu það einnig að verkum að lengd bindis skipti ekki jafnmiklu máli. Um 1944 urðu bindin bæði þykkari og villtari sem tengist meðal annars heimkomu hermanna, sem voru komnir með nóg af einkennisbúningum herþjónustunnar. Bindisþykktin var allt að 13 cm í þvermál og fór að bera á alls konar litríkum myndum, mynstrum og jafnvel landslagsmyndum. Lengdin var í kringum 120 cm.

Mister T

Þetta villta útlit dvínaði upp úr 1951 þegar „Herra T“-útlitið („Mister T“ eins og Esquire-tímaritið nefndi það) var kynnt til sögunnar. Þetta nýja og ferska útlit einkenndist af frammjókkandi jakkafötum, grennri boðungum, minni hattabrík sem og einfaldari og grennri bindum. Bindisþykkt fer niður í ríflega 8 cm og þau héldu áfram að mjókka fram til 1960 í kjölfar vinsælda breskra hljómsveita eins og Bítlanna og the Kinks. Bindin lengdust í 130 cm eftir því sem karlar fóru að ganga í buxum sem sátu neðar á mjöðmunum. Um 1960 voru einlit, dökk og allt niður í 2,5 cm mjó bindi mest í tísku. Svo fór aftur að bera á villtari litum og þykkara hálstaui.

Loðvík XIV. með fylgdarliði sínu. Að sjálfsögðu skarta allir forkunnarfögru hálstaui fyrir tíma bindanna.

Strax um 1970 slógu mjóu bindin aftur í gegn með nýbylgjunni og popphljómsveitum eins og Knack, Blondie og Duran Duran. Upp úr 1980 og fram til 1990 fór einnig að bera á grínbindum og bindum sem skörtuðu meðvitað hallærislegu mynstri og myndum.

Seint á tíunda áratugnum tóku tveir menn að nafni Thomas Fink and Yong Mao, sig til á vegum Cambridge Cavendish rannsóknarstofunnar og svöruðu aldagamalli spurningu, sem hafði líklega legið þungt á mörgum, um fjölda leiða til þess að binda bindi. Þessir fræknu menn notuðu stærðfræðilíkan til þess að finna út hina 85 hnúta sem mögulegir eru, þegar kemur að bindingu hálsbindis. Rannsóknir þeirra miðuðust við að hreyfingar við bindishnútagerðina væru eigi fleiri en níu, þar sem fleiri yrðu til þess að hnúturinn yrði of stór eða endarnir of stuttir. Af þessum 85 hnútum völdu Mao og Fink þrettán bindishnúta með aðferðum fagurfræðinnar og útnefndu sem þá nothæfustu. Af þessum þrettán eru fjórir algengastir enn í dag, og er hinn svokallaði „fjórir í hendi“ þeirra allra vinsælastur. Einnig eru þar á meðal Pratt hnúturinn, hálfur Windsor hnútur og svo Windsor hnútur. Upp úr 2000 þróast meðalþvermál binda í að vera um 9-9,5 cm og hefðbundin lengd binda í um 140 cm. Tískan er afar fjölbreytt þegar kemur að mynstrum, myndum og litum.