Vöruhönnuðurinn Elín Arna Kristjánsdóttir Ringsted var ein þeirra sem tóku þátt Hugverki, samsýningu á vegum Félags vöru- og iðnhönnuða á HönnunarMars í síðustu viku. „Ég var ein af átta hönnuðum og hönnunarteymum sem sýndu verk á Hugverki en sýningin var til húsa á Hafnartorgi í miðbæ Reykjavíkur. Sjálf sýndi ég skúlptúra úr jarðleir sem hafa einungis það hlutverk að halda uppi einu strái. Að sjá einangraða fegurð þar sem grófur og ófullkominn skúlptúr setur fullkomna symmetríska stráið í hásæti.“

Hún segir síðasta árið í náminu í vöruhönnun hafa verið mjög krefjandi fyrir bæði líkama og sál. „Ég ákvað því að gefa mér rými til að endurupplifa mig sem hönnuð og listamann án skólaþrýstings og staðla. Mér þótti mikilvægt fyrir listræna þróun mína að finna nýjan efnivið sem væri mér ókunnugur og rannsaka hann með barnslegri forvitni. Það hefur mér þótt uppbyggjandi þar sem ég hef ekkert til að bera mig saman við, ég kann ekki á þennan efnivið og því ekki hægt að gera nein „mistök“. Ég hef unnið með jarðleirinn síðan í desember sem er efniviður sem ég hafði enga kunnáttu um áður.“

Elín Arna sýndi skúlptúra á HönnunarMars í síðustu viku úr jarðleir sem hafa einungis það hlutverk að halda uppi einu strái. MYNDIR/AÐSENDAR

Margt spennandi í boði

Elín Arna útskrifaðist vorið 2021 með BA-gráðu í vöruhönnun frá Listaháskóla Íslands. „Ég hef mest unnið mín verk úr frá „speculative“ hönnun en hún snýst um að horfa á efni/feril/vandamál/nýsköpun og svo framvegis frá sjónarhorni „lausna“ sem gætu þróast út frá verkferlum í dag og hvernig hönnun af gagnrýnum toga kemur þar inn. Hönnun með einhvers konar gagnvirkni hefur mér einnig þótt áhugaverður þáttur í hönnunarverkum.“

Hún segir mörg spennandi verkefni í boði eftir útskrift. „Ég held að við verðum bara að sjá hvað muni heilla mig mest. Núna er ég mest spennt fyrir því að vinna verk með vinum mínum sem eru allir magnaðir listamenn þvert á listgreinar. Einnig hef ég unnið undanfarin átta ár við förðun og farðað fyrir alls kyns myndatökur, leikrit, tónlistarmyndbönd, plötuumslög, auglýsingar og margt fleira.“

Elín Arna sýnir lesendum hér inn í fataskápinn sinn.

Hvítu grifflurnar heklaði Elín Arna sjálf en allar aðrar flíkur keypti hún í Rauða krossinum. FRÉTTABLAÐIÐ/VALLI

Hvernig hefur tískuáhugi þinn þróast undanfarin ár?

Mér finnst hann breytast og þróast nánast mánaðarlega. Það fer mikið eftir því í hverju ég er að spá hverju sinni.

Hvernig fylgist þú helst með tískunni?

Ég fylgist helst með tískunni í gegnum fólkið í kringum mig, hvort sem það eru vinir mínir eða fólk sem ég mæti á förnum vegi.

Hvar kaupir þú helst fötin þín?

Ég kaupi 99.9% af fötunum mínum í Rauða krossinum. Annars á mörkuðum eða öðrum „second hand/vintage“ búðum.

Trefillinn er úr Rauða krossinum, bolinn heklaði hún og vestið er úr vintage búð í París. Pilsið er frá vinkonu mömmu hennar og skóna keypti hún á markaði. Amma hennar átti hanskana og sólgleraugun eru keypti hún í Góða hirðinum. FRÉTTABLAÐIÐ/VALLI

Hvaða litir eru í uppáhaldi?

Það eru engir sérstakir litir í uppáhaldi í augnablikinu en ég er mjög hrifin af „monochrome outfittum“ eins og er. Þá er einn litur ráðandi í heildarútlitinu.

Áttu minningar um gömul tískuslys?

Þau eru mörg en ég hef þurrkað þau út úr minninu mínu.

Hvaða þekkti einstaklingur, innlendur og erlendur, er svalur þegar kemur að tísku?

Ég er ekki nógu dugleg að fylgjast með tísku hjá þekktum einstaklingum en Muni kærastinn minn og Arna Inga vinkona og sambýliskona mín eru með magnaðan fatastíl, enda bæði í fatahönnun í LHÍ.

Hvaða flíkur hefur þú átt lengst og notar enn þá?

Ætli það sé ekki frakki sem ég rændi af pabba fyrir mörgum árum

Hér klæðist Elín Arna gömlum jakka frá mömmu vinkonu sinnar og pilsi frá What Magna wore. Hatturinn, sólgleraugun, bolurinn og skórnir eru úr Rauða krossinum. Hálsmenið er eftir Dísu Jakobsdóttur. FRÉTTABLAÐIÐ/VALLI

Áttu uppáhaldsverslanir?

Rauði krossinn

Áttu eina uppáhaldsflík?

Það breytist með hverri viku en í augnablikinu er það loðgrifflur sem ég keypti í London sem einhver rændi nýlega á bar í miðbænum.

Notar þú fylgihluti?

Mér finnst fylgihlutir vera lykilatriði þegar kemur að því að setja saman gott heildarútlit.