Á hverjum einasta áratug frá upphafi 20. aldarinnar hefur komið fram ný tíska í klæðaburði, sem einkennir áratuginn sem þar fer á eftir. Tískan er líka hringrás og við sjáum sömu sniðin koma upp aftur og aftur. Til að mynda er ekki ýkja langt síðan tíska tíunda áratugarins gekk aftur með sínum gegnsæju nælonefnum, stóru íþróttapeysum og Dr. Martens-skóm. Þar áður var leitað í eldri tískustrauma.

85.000 snið á netinu

McCall‘s, Butterick, Simplicity, Vogue, Burda. Þeir kannast kannski við þessi nöfn sem hafa saumað mikið í gegnum tíðina, en um er að ræða vinsælustu sníðablöð síðustu aldar. Fandom- vefsíðan hefur tekið saman og birt undir nafninu „Vintage Patterns,“ yfir 85.000 saumasnið sem gaman er fyrir tískuáhugamenn að dást að. Sniðin eru öll komin yfir 25 ára aldurinn, þau elstu eru frá um 1850 og yngstu eru frá 1995.

Snið sjötta áratugarins einkenndust af aðsniðum efrihluta og annars vegar fylltum pilsum eða þröngum.

Sniðin eru öll flokkuð eftir tímabilum, tegund klæðnaðar, hönnuðum og fleiru og veitir safnið þannig þrælskemmtilega sýn á tískusöguna sem slíka. Því er tilvalið fyrir tískuáhugamenn að skoða sniðin sem voru í boði í gamla daga. Einnig eru tengingar inni á vefsíðunni á sölustaði á netinu, fyrir safnara eða hugrakka einstaklinga sem hafa áhuga á að sauma upp úr sniðunum. Að minnsta kosti er hægt að fá þar feykinógan innblástur. Nú er loksins kominn tími til að dusta rykið af saumavélinni og reyna færni sína á gömlum saumasniðum.

Fyllt pils voru einnig afar vinsæl á sjötta áratugnum.

„Tventís“

Glamúr, gleði og glæsileg höfuðföt. Tíska þriðja áratugarins (1921-1930) einkenndist af leikgleði og styttri pilsum en höfðu áður verið vinsæl. Einnig voru flíkurnar lausari á líkamanum og minna aðsniðnar. Flapper kjóllinn frá þessu tímabili kom hönnuðum eins og Coco Chanel og Paul Poiret á tískukortið. Tískan hjá körlunum breyttist einnig, en föt sem hentuðu íþróttaiðkun urðu vinsælli og partur af daglegum klæðnaði.

Hér má sjá gullfallegan silkiflauelskvöldkjól í flapper-stíl úr smiðju Coco Chanel 1926, með skrautsteinum og glerperlum.

„Fiftís“

Rokkið hefur áhrif á tískuna að því leyti að konurnar fóru að sýna meira hold og buxurnar hjá körl­un­um fóru að þrengjast. Kjólar sjötta áratugarins áttu það flestir sameiginlegt að vera sniðn­ir að mittinu með pílum. Pils­in voru ýmist þrengri og löguð að leggjunum eða hringlaga með ýktri fyllingu. Á þessum áratug urðu sníðablöð eins og McCall’s, Butterick, Simplicity og Vogue æ vinsælli.

Engillinn Farah Fawcett var tískutákn áttunda áratugarins með sitt mikla, túberaða hár. Hér má sjá hana í útvíðum buxum og íþróttapeysu æfa sig á hjólabretti.

„Seventís“

Tíska áttunda áratugarins hófst sem áframhald af þeim sjöunda, en snemma fór að bera á nýjum straum­um. Útvíðar buxur full­komn­uðu diskó-útlitið ásamt rúllu­kragapeysum. Flæðandi vafningskjólar með óríental- og blómamynstrum í anda hippanna oru einnig vinsælir. Áratugurinn endaði svo á því að pönkið ruddi sér til rúms.