Þegar fólk hugsar um tískuvita dettur kannski fáum leikarinn Jonah Hill fyrst í hug, en hann hefur verið að gerbreyta sér og stíl sínum á síðustu árum og er nú allt annar maður en þybbni nördinn sem við kynntumst fyrst í kvikmyndum eins og Superbad. Nú vekur hann athygli hvert sem hann fer fyrir klæðaburð og hefur heillað marga að undanförnu.

Jonah girti körfuboltaskyrtuna sína ofan í buxurnar til að stríða paparazzi-ljósmyndurum árið 2018. FRÉTTABLAÐIÐ/GETTY

Jonah eyddi stærstum hluta síðasta áratugar í götufatnaði áður en hann fór að einbeita sér að listrænum hönnunarmerkjum eins og Marni og Dries. Hann litaði hárið á sér oftar en einu sinni og fékk sér fullt af húðflúrum og hefur skipt á milli þess að vera í látlausum en vönduðum götufatnaði og hátískufatnaði, ásamt því að láta stundum sjá sig í alls konar skrítnum samsetningum þegar hann langar að stríða paparazzi-ljósmyndurum eða bara komast auðveldlega út í kaffi og sígó.

Jonah Hill ásamt kærustu sinni ­Söruh Brady, á frumsýningu Don’t Look Up í New York fyrr í mánuðinum. FRÉTTABLAÐIÐ/GETTY

Fyrr í mánuðinum mætti hann á frumsýningu Don’t Look Up, nýjustu kvikmyndar sinnar, sem kemur á Netflix á aðfangadag. Þar klæddist hann ljósbláum Gucci-jakkafötum sem hefðu verið nóg til að grípa auga flestra, en hann var líka ber að ofan undir þeim, með stóra keðju um hálsinn og í glansandi inniskóm. Til að kóróna allt klæddist kærastan hans svo alveg eins.

Jonah Hill kann vel við sig í þægilegum en vönduðum götufatnaði. FRÉTTABLAÐIÐ/GETTY

Í þessum mánuði náðist líka mynd af honum í fötum sem voru öll lituð með hnútabatik (e. tie-dye), í Nike Dunks-skóm sem voru hannaðir af Virgil Abloh heitnum og í sokkum frá listræna götumerkinu Gallery Dept.

Hill er óhræddur við að prófa nýja hluti. FRÉTTABLAÐIÐ/GETTY

Þessi tvö ólíku útlit gefa ágæta hugmynd af stíl Jonah Hill í dag, en eins og sjá má á myndunum gleymir hann aldrei að hafa gaman af klæðnaði sínum og er óhræddur við að prófa nýja hluti.

Hér er Jonah í litríkum en látlausum fatnaði í myndatöku til að kynna kvikmyndina Mid 90’s, sem hann skrifaði og leikstýrði sjálfur. FRÉTTABLAÐIÐ/GETTY
Jonah á tískuvikunni í París í janúar 2019. FRÉTTABLAÐIÐ/GETTY
Jonah á frumsýningu Mid 90's í Berlín árið 2019. FRÉTTABLAÐIÐ/GETTY