Í nýlegri grein á tískuvefsíðunni vogue.‌com veltir greinarhöfundur fyrir sér hver sé framtíð og tilgangur tískusýninga. Samkvæmt greinarhöfundinum Steff Yotka er setningin: „Hver er tilgangur tískusýningar?“ algengasta setningin, tengd tískusýningum, sem slegin er inn í leitarvélina Google.

Fólk úr öllum geirum tískuiðnaðarins hefur velt þessari spurningu fyrir sér. Tískuhönnuðurinn Jonathan Andersson sagði í viðtali við Vouge að sú hugmynd að tískuiðnaðurinn snerist um tískusýningar væri tálsýn, 70% af vinnu hans sem listræns stjórnanda snerust um aðra hluti.

Það er orðið svo að sumir hönnuðir hafa ákveðið að hætta alfarið með tískusýningar. Hönnuðurinn Philip Lim sem hleypti af stokkunum tískumerki sínu 3.1. Philip Lim Brand á tískuvikunni í New York árið 2005 hefur ákveðið að hætta alveg að taka þátt í tískuvikum og stórum sýningum. Hann sagði í viðtali við Vogue á síðasta ári að tískan undanfarið hefði ekki snúist um föt heldur allan sirkusinn í kringum þau. „Við erum ekki í sirkusbransanum,“ sagði hann.

Látlaus sýning í vöruhúsi

Liam var áður þekktur fyrir yfirgengilegar tískusýningar á stórum sviðum og fötin hans og stíll breyttust með hverri árstíð. Þegar hann sýndi aftur á móti vortískuna 2020 var sýningin látlaus og haldin í litlu vöruhúsi fyrir lítinn fjölda áhorfenda. Hann vill einbeita sér aftur að fötunum sjálfum en ekki öllum glamúrnum í kringum þau og gera framleiðsluna sjálfbæra. Lífræn, náttúrulega og endurunnin efni er helsta breytingin í hönnun hans í átt að meiri sjálfbærni.

Þó að sífellt fleiri hönnuðir hafi snúið baki við stórum tískusýningum og snúið sér frekar að minni viðburðum eins og sýningum í verslunum, litlum kynningum eða fjölmiðlaherferðum eru enn hönnuðir sem vilja leggja mikla áherslu á stórar tískusýningar tvisvar á ári. Einn þeirra er Marc Jacobs sem er farinn að merkja fötin sín með dagsetningunum á tískusýningum sínum.

Tískusérfræðingar hafa sagt að stórar tískusýningar munu þó halda áfram að skipta máli þrátt fyrir að einhverjir tískuhönnuðir vilji einbeita sér að öðru. Ástæða þess er meðal annars sú að stórar tískusýningar fá mikla fjölmiðlaumfjöllum og fyrir nýja hönnuði sem vilja koma sér á framfæri getur verið stór stökkpallur að taka þátt í stórum tískuvikum.

Marc Jacobs leggur mikið upp úr íburðarmiklum sýningum.
Fyrirsæta á sýningu Marc Jacobs á vortískunni 2020 er hér í skærappelsínugulum kjól með hatt og stígvél í stíl.