Þráðlaus heyrnartól með Bluetooth-tengingu hafa rutt sér rúms á undanförnum árum, en verðið á slíkum búnaði getur hlaupið á tugum þúsunda. Heimspressan hefur þó undanfarið gripið tónlistarfólk, fyrirsætur og fótboltastjörnur með eldri útgáfur, sem einhverjum þykja gamaldags.

Nýjasta stjarnan í snúru-liðinu er sjálfur forsætisráðherra Íslands, Katrín Jakobsdóttir, en heitar umræður sköpuðust á Twitter eftir að mynd birtist af henni þar sem hún sat á skrifstofu sinni með snúruheyrnartól og húfu.

Einn Twitter-notandi benti á að umhverfisins vegna ætti fólk að halda áfram að nota snúruheyrnartólin, í stað þess að kaupa ný. Annar ætlaði ástæðuna vera betri hljóðnema í snúruheyrnartólum.

Vinsælustu Bluetooth-heyrnartólin á markaðnum eru frá Apple-tæknirisanum, en AirPods öfluðu þeim tekna upp á 38,3 milljarða Bandaríkjadala, á ársgrundvelli.

Í frétt The Wall Street Journal kemur fram að tískumógúlar vestanhafs hampi snúruheyrnartólum sem aldrei fyrr, en ástæðan liggi í að Bluetooth-heyrnartólin séu orðin of vinsæl og skapi hugrenningatengsl við það sem á ensku kallast tech-bro, sem má þýða sem tækni-fýr, sem er staðalmyndin af ungum manni á uppleið í tæknigeiranum í Silíkondalnum.

Tískutímaritið Vogue birtir umfjöllun um snúruheyrnartólanotkun fyrirsætunnar Bellu Hadid og þar réttlætir blaðamaður stílinn með endurhvarfi til aldamótatískunnar.

Fótboltamaðurinn Virgil Van Dijk var einnig gripinn með snúruheyrnartólin og einhverjir hneyksluðust á því að maður með jafn háar tekjur léti sjá sig með slík tæki.

Frægðarfólkið í útlöndum gerir það þannig ódýrara að vera töff og augljóst má vera að snúruheyrnartólin eru ekkert á útleið, að minnsta kosti ekki í nánustu framtíð.