Konur eru alltaf fínar í fallegum vetrarkápum og allar ættu þær að eiga eina sparikápu í skápnum. Það er fleira sem má sjá í vetrartískunni. Jakkar eru vinsælir og sömuleiðis síðir prjónakjólar. Litir eru meira áberandi í vetrartískunni núna en oft áður. Gleði í litum er sögð vera sú bjartsýni sem tískuhönnuðir vonast eftir þegar takmarkanir verði aflagðar og fólk getur farið að lifa eðlilegu lífi aftur.

Tískusýningar eru komnar af stað aftur og sumartískan 2022 er kynnt í París þessa dagana. Götur Parísar hafa því aldeilis lifnað við en þar er nú staddur hópur hönnuða og tískuritstjóra ásamt fyrirsætum. Tískusýningarnar laða líka alltaf til sín stóran hóp tískusérfræðinga og -áhugafólks um hvað sé á döfinni í þessum litríka heimi. Meira en 100 vörumerki sýna vor- og sumartískuna. Margir eru að hittast aftur eftir rúmlega eitt og hálft ár enda hefur tískuheimurinn verið stafrænn á tímum Covid.

Meðal þeirra sem snúa aftur á sviðið eru Dior, Louis Vuitton, Valentino og Balenciaga svo einhverjir séu nefndir. Eins og venjulega eru sköpunin og hugmyndaflugið á mikilli ferð þegar efnt er til tískusýningar og ekkert til sparað.

Þótt það sé margt fallegt að sjá fyrir komandi vor og sumar þá er það vetrartískan sem við einblínum á hér. Hún verður bæði skemmtileg og fjölbreytt, segja tískusérfræðingar. Þótt veturinn verði kaldur er að minnsta kosti hægt að klæða sig töff. Hlý efni eru í tískufatnaði svo engum ætti að vera kalt þótt hann fylgi tískubylgjum. Heimsfaraldur hefur opnað augu tískuhönnuða fyrir því hagnýta í breyttum heimi. Efnin eru valin í samræmi við það og til dæmis notaðir gerviloðfeldir í stað dýraafurða.

Falleg ullarkápa í bláum lit frá tískuhúsi Dior.
Glæsilegur samkvæmisfatnaður fyrir árshátíðir vetrarins frá Armani.
Það verður ekki amalegt að klæðast upp í svona fallegu dressi frá Armani.
Stórir og víðir jakkar eru hluti af vetrartískunni. Þessi glæsilegi jakki er frá Louis Vuitton.
Köflóttur jakki við vítt pils verður meðal þess sem sjá má í vetur. Þessi fallegi klæðnaður er frá Chanel.
Víður ullarjakki frá Louis Vuitton. Takið eftir háu stígvélunum.
Valentino sýndi þessa flottu kuldaskó sem myndu sóma sér vel bæði við buxur eða kjól.
:Vetrarskór frá Valentino. Flottur litur.