Breska vefsíðan LoveTheSales.com tók saman tölur yfir vefleit að klæðnaði kvennanna í samkomubanninu og þar sést að klæðnaður Middleton var mun vinsælli. Síðan í mars hefur leit að fötum sem Middleton klæddist aukist um 86%, en á sama tíma jókst leit að fötum sem Markle klæddist um 35%.

Sumt af því sem Middleton klæddist á viðburðum sem fóru fram í gegnum forritið Zoom í samkomubanninu, hefur selst upp í Bretlandi í kjölfarið. Þar á meðal toppur frá versluninni Zöru og blár kjóll frá vefversluninni Boden, sem var vinsælasta flíkin sem Middleton skartaði í samkomubanninu.

Alls sást Middleton í sextán ólíkum samsetningum og fjórtán þeirra hafa selst upp. Á sama tíma hefur bara ein af þeim sex samsetningum sem Markle sást í selst upp.

Ólíkir stílar

Þrátt fyrir að vera að vinna heima var Middleton alltaf snyrtileg til fara og gekk í frekar afslöppuðum klæðnaði frá ýmsum hönnuðum. Eins og venjulega klæddist hún líka ýmsum ódýrari flíkum og notaði sumar samsetningar nokkrum sinnum.

Þessar íþróttabuxur voru vinsælasta flíkin sem Markle notaði. MYND/JAMESPERSE.COM

Markle þurfti hins vegar lítið að koma fram og vinna í samkomubanninu, þar sem hún og Harry prins hættu að sinna embættisskyldum fyrir bresku konungsfjölskylduna í lok marsmánaðar. Markle sást yfirleitt í frjálslegum og afslöppuðum klæðnaði eins og stuttermabolum, víðum, hnepptum skyrtum og strigaskóm.

Sú flík sem Markle sást í og naut mestra vinsælda voru íþróttabuxur frá hönnuðinum James Perse.

Samkvæmt samantektinni var meðalverðið á klæðnaði Middleton rúmlega 72 þúsund krónur en meðalverðið á klæðnaði Markle rétt tæplega 32 þúsund krónur.

Vinsældir Markle minnka

Svo virðist sem fjarlægðin frá konungsfjölskyldunni og breytingar á stíl Markle, hafi leitt til þess að vinsældir hennar hafi dalað nokkuð. Markle tók við af Middleton sem áhrifamesti meðlimur bresku konungsfjölskyldunnar, eftir að hún og Harry sögðu frá sambandi sínu opinberlega árið 2017, en vinsældir Middleton hafa aukist aftur á þessu ári, eftir að þau hjónin hættu að sinna embættisskyldum fyrir konungsfjölskylduna.