Andri er á fyrsta ári í meistaranámi í fatahönnun í KADK í Danmörku og segir námið vera algera neglu. „Ég hef aldrei haft jafngreiðan aðgang að alls konar tækjum og tólum eins og nú. Til dæmis var ég að sauma með hljóðbylgjum á seinustu önn. Námið sjálft er mjög frjálslegt og það er í raun undir manni sjálfum komið hvað maður fær út úr því. En það er mikil áhersla lögð á að dýpka sköpunarbrunninn. Svo kostar hann ekki neitt þar sem Danir eru óhræddir við að ríkisstyrkja skapandi greinar, sem er ákveðinn bónus,“ segir Andri.

Andri vill feta nýjar slóðir og búa til föt sem fagna lífinu.

Hönnunargeirinn fór í kleinu

Í kjölfar COVID-19 fór tískubransinn í algera kleinu, að sögn Andra. „Það verða fáir tískuviðburðir í sumar og haust og mörg tískuhús hafa þurft að segja upp starfsfólki. Faraldurinn er einstakt tækifæri fyrir tískubransann til að hætta þessum hégóma sem hann er svo þekktur fyrir og hægja á sér, því kerfið er löngu sprungið. Örfáir lykilaðilar eins og til dæmis Gucci ætla sér að nýta aðstæður og segja skilið við gamlar hefðir. En allt of fáir virðast ætla að feta í þau fótspor. Mér skilst á öllu að fjöldaframleiðsla haldi sínu striki en fyrirtæki eins og H&M og Zara hafa ekkert tjáð sig um að draga úr mengun. Ég veit að Dries Van Noten er í forsprakki fyrir hóp af frægum merkjum sem skora á iðnaðinn að endurmóta kerfið. Vonandi tekst þeim það, plánetunnar okkar vegna.“

Einnig vill Andri leggja áherslu á ábyrgð tískubransans þegar kemur að ýmsum samfélagsmeinum eins og rasisma. „Black. Lives. Matter! Kerfisbundnir kynþáttafordómar eru klárlega til staðar hjá okkur á Norðurlöndunum og núna er tíminn runninn upp til að krefjast þess að fyrirtækin sem við lítum upp til, taki afstöðu gegn fordómum. Tískubransinn hefur verið alltof hlédrægur í því að veita málefninu stuðning af því að merkin eru svo hrædd við að missa viðskipti við hvítan forréttindahóp. Tíska mótar umhverfi okkar og efnahag og rasismi á að vera ólíðandi innan hennar.“

Tískan varð snemma tjáningarmáti fyrir ungan og vandræðalegan Andra.

Tengdi ungur við tjáningu með notkun klæðaburðar

Andri segist eiga það til að vera fastur í hausnum á sér og vera vandræðalegur við annað fólk. Því tengdi hann snemma á ævinni við tjáningu með klæðaburði. „Því þá þarf ég ekki að tala. Þegar ég ákvað að ég vildi fara skapandi leið í lífinu voru tíska og hönnun það sem kallaði fyrst og hæst.“

Ferillinn byrjaði hjá Andra þegar hann keypti sér skissubók og liti til þess að búa til möppu fyrir umsókn í LHÍ. „Eins og fyrir eitthvert kraftaverk komst ég inn og lauk þar námi í fatahönnun vorið 2015. Eftir að hafa verið í Berlín í tvö ár, þar sem ég vann meðal annars sem nemi fyrir serbneska hönnuðinn Sadak, flutti ég aftur heim og fór að vinna sjálfstætt af fullum krafti. Ég leiddist út í bæði stílistann og búningahönnun en mesta púðrið setti ég í samstarf við tónlistar- og sviðslistafólk. Það var algjör draumur að fá að taka þátt í hugarfóstri þeirra en sem dæmi má nefna Auður, Reykjavíkurdætur og Vök.“

Andri Unnarson var meðal annars hluti af teyminu sem fór út með Hatara-atriðinu til Tel Avív fyrir hönd Íslands í Eurovision. „Ég og Karen Briem búningahönnuður sáum alfarið um útlit hópsins, í nánu samstarfi við þau sjálf að sjálfsögðu. Í því fólst bæði búninga- og fatahönnun ásamt stílisering. Okkar hlutverk var að túlka heim Hatara sjónrænt yfir í klæðaburð til að undirstrika enn fremur hvað þetta atriði stendur fyrir.“

Hönnunarstíll Andra er ögrandi og draumórakenndur.

Vill fagna lífinu í hönnuninni

Hönnunarstíll Andra er ögrandi og draumórakenndur. „Það er nóg til af venjulegum fötum í heiminum. Mér finnst skemmtilegra að skoða hvernig ég get fetað nýjar slóðir og búið til föt sem fagna lífinu. Stundum geri ég eitthvað klæðilegt en oftar leiðist ég út í draumóra. Ég hef alltaf verið heillaður af bransanum og heimur án hönnunar og tísku væri grár og leiðinlegur. Ég er líka algjör alæta á innblástur, sem getur verið ákveðin tegund af fötum, annað fólk eða mínar eigin tilfinningar. Ef viðfangsefnið vekur upp fleiri spurningar en ég get svarað er ég með eitthvað gott í höndunum. Þessa dagana er ég að skoða umhverfisvænar leiðir til að búa til og hanna föt. Oft var þörf en nú er þetta alger nauðsyn.“

Heimur án tísku og hönnunar væri grár og leiðinlegur að mati Andra.

Að sögn Andra skapast mikil tækifæri og tengslanet við það að mennta sig á stað þar sem iðnaðurinn er meira lifandi en á Íslandi. „Þótt senan sé lítil í Danmörku eru Danir miklar skrautfjaðrir og margir hönnuðir hér að gera frábæra hluti. Alþjóðamarkaðurinn horfir sífellt meira til Kaupmannahafnar og tækifærin fyrir umhverfisvæna hönnun eru klárlega hér.“

Hönnun Andra er bæði fersk og spennandi.

Nýlega var Andra boðið að sýna verk á Cyber Fashion Week sem haldin var á Instagram. „Þetta er eins konar rafrænt sýningarrými þar sem er til sýnis myndaþáttur sem ég vann með Inga Kristjáni, grafískum hönnuði.“