Pantone valdi í ár tvo liti sem liti ársins 2021, og það eru litirnir Ultimate Gray og Illuminating. Ekki hafa áður verið valdir tveir litir saman.

Að sögn Pantone er um að ræða litapar sem dregur fram djúpa hugulsemi með bjartsýnu loforði um heiðskíran sólardag.

Gulur og grár en ekki blár

Pantone valdi bláan lit í fyrra sem lit ársins 2020 en blár tengist sterklega trausti, sem var eitthvað sem heimsbyggðin þurfti á að halda í miðjum heimsfaraldri. Í dag er þörfin önnur. Fólk sækir í jákvæðni, bjartsýni og hlýju.

Grár er, ja, grár. Skrifstofufólk þekkir þennan lit líklegast á eigin skinni og það er fátt um hann að segja. En guli Illuminating liturinn poppar upp gráa litinn á áhugaverðan og skemmtilegan máta.

Bjartsýni og gleði

Það er því ekki að undra að gulur var einn af mest áberandi litum tískupallanna þegar haust- og vetrartískan var kynnt í sumar. Flest tískuhúsin voru að minnsta kosti með eina áberandi, gula flík. Hún var ekkert endilega í gula litatóninum sem Pantone kynnti, en hún var augsýnilega gul og eins og gulum er einum lagið, þá var ómögulegt að gleðjast ekki.

Það er því ljóst að það verður fleira gult í haust en bara laufin á trjánum. Það má búast við að verslanir fari í auknum mæli að bjóða tískusinnuðum upp á þennan fallega og glaðlega lit og mana þá allra feimnustu til þess að skarta gulu. ■

Jean-Paul Gaultier viðrar hér gult og svart í köflóttu mynstri í París. Fréttablaðið/Getty
Chanel tekur þátt í gulu hættunni með þessari notalegu karrígulu kápu. Fréttablaðið/Getty
Getty