Drífa útskrifaðist úr fatahönnunardeild Listaháskóla Íslands árið 2014. Áður hafði hún lært við textíldeild Fjölbrautaskólans í Breiðholti og hefur textíláhuginn fylgt henni æ síðan. Eftir LHÍ fór Drífa í starfsnám í London og að því loknu sneri hún aftur heim til Íslands. „Ég tók mér smá pásu, náði mér í landvarðarréttindi og starfaði sem landvörður um tíma. Mig fór þó fljótt að lengja eftir meiri sköpun í lífi mínu,“ segir Drífa.

Þá hélt hún í eins árs meistaranám í fatahönnun til Parísar þar sem hún sérhæfði sig í nýjum efnum og tækni. „Ég komst að því að það var ekki beint það sem ég hafði áhuga á og vissi að ég vildi fara aftur í grunninn. Ég komst í leiðinni að því að eitt ár er hvergi nægur tími fyrir meistaranám.“

Á kúpunni í Berlín

Eftir París bjó Drífa í eitt ár í Berlín. Þar var hún á kúpunni, eins og hún orðar það og nýtti tímann til þess að auka færni sína í myndvinnsluforritunum Illustrator og Photo­shop. Einnig teiknaði hún mikið, saumaði út og prjónaði. „Ég gerði þetta mér til dægrastyttingar, vegna þess að handverk er afar tímafrekt en skemmtilegt og þegar maður þarf að hafa ofan af fyrir sér á ódýran hátt getur handverk og sjálfsnám verið ágætt.“

Hannaði línu af sjö mynstrum

Það var þarna sem eitthvað small hjá Drífu. „Ég fékk í kjölfarið verulegan áhuga á mynsturgerð og grafík. Þrátt fyrir að vera komin með meistaragráðu fannst mér ég ekki vita nóg um efni og hegðun þeirra. Allt frá því ég var í textíldeild FB hef ég umgengist og pælt í textíl og fatnaði. Áhuginn blossaði upp aftur og ég ákvað að fara í diplómanám í textíldeild í Myndlistaskólanum í Reykjavík. Ég hef getað nýtt mér námið í MÍR til hins ýtrasta.“

Kannar myrkfælni á ­grundvelli mynstra

Eins og er vinnur Drífa nú hart að lokaverkefni sínu í textíldeild Myndlistaskólans í Reykjavík. Hún segir að sinn helsti innblástur komi frá fyrirbærum sem vekja ótta hjá henni. „Skrímsli, geimverur og geimurinn, þjóðsögur og ofsi náttúrunnar hafa fram til þessa veitt mér mikinn innblástur. Ég lifi mig alltaf svo mikið inn í hluti að óttinn verður spennandi. Þegar ég hanna vinn ég mikið með sjónhverfingar og hugmyndina um sjónhverfingar. Það heillar mig hvernig má umbreyta mannslíkamanum í ókunna veru með spennandi sníðagerð eða áhrifamiklum mynstrum.“

Mynstrin hennar Drífu geta öll staðið sér, en stemma einnig þegar þau eru lögð ofan á hvert annað.

Drífa heillaðist fyrst af tísku þegar hún var unglingur. „Þegar ég uppgötvaði Alexander McQueen og sá hvernig hann braut upp tískusýningarformið varð ég mjög innblásin og það rann upp fyrir mér hvernig hægt væri að sameina alla listmiðla innan tískunnar. Og það er líka það sem ég fíla við tísku. Hún er praktískt listaverk.“

Völundarhús hugans og væmin blómaveggfóður

Drífa hefur sérhæft sig í silkiþrykki í náminu. „Í lokaverkefninu kanna ég reynslu mína af myrkfælni á grundvelli mynstra. Ég hef hannað línu af sjö mynstrum sem byggja meðal annars á hugmyndinni um myrkfælni sem völundarhús hugans og væmin blómaveggfóður sem taka umbreytingum í fjórðu víddinni.

Mynstrin eru sérstök að því leyti að þau geta öll staðið sér, en stemma líka þegar þau eru lögð ofan á hvert annað. Þetta gerir það að verkum að hægt er að skeyta þeim saman á ótal vegu og þá fást tugir möguleika á mismunandi mynstrum út frá sjö mynstureiningum. Síðan þrykki ég mynstrin og sauma úr þeim flíkur, sem ég hef hannað til að passa saman, líkt og mynstrin. Þannig er hægt að blanda saman mismunandi efnum, mynstrum og sniðum.

Afraksturinn af þrykkvinnunni er bæði andlegur sem og líkamlegur.

Það sem mér finnst unaðslegt við að þrykkja er hversu líkamlegt það er, en jafnframt nákvæmt. Eftir margra mánaða vinnu við að stara á tölvuskjá í nákvæmnisvinnu er æðislegt að sjá mynstrin lifna við og ganga upp á efninu. Ég tala nú ekki um líkamsræktina sem þrykkið er. Afraksturinn er bæði andlegur og líkamlegur.“

Drífa mun sýna lokaverkefni sitt í Gryfjunni í Ásmundarsal ásamt bekkjarsystrum sínum í júlí. „Síðan langar mig að þróa lokaverkefnið mitt í litla línu sem ég get sýnt og selt. Í framtíðinni langar mig að starfa við að þrykkja og hanna mynstur, föt og aðra grafík. Síðan fer ég jafnvel í starfsnám til Japans, þegar aðstæður leyfa.“

Drífa Líftóra Thoroddsen er spennandi og upprennandi textílhönnuður sem gefur okkur fulla ástæðu til þess að fylgjast með sér í framtíðinni.