Nú eru tólf dagar liðnir síðan eldgos hófst í Geldingadölum við Fagradalsfjall. Síðan hefur verið stöðugur straumur gesta á svæðið. Fjölmargir hafa birt myndir af sér frá gosstöðvunum og virðast flestir klæða sig eftir aðstæðum og veðri, enda er það nauðsynlegt.

Fréttablaðið/Anton Brink

Það er þó gaman að skoða hvort sjáanlegir séu einhverjir straumar eða stefnur í vali Íslendinga á útvistarfatnaði. Goretexið virðist alltaf jafn vinsælt og kraftgallinn mögulega að ryðja sér til rúms á nýjan leik. Fréttablaðið fékk nokkra aðila sem eru sérfróðir um málið til að rýna í hvort merkja megi sérstaka tískustrauma við gosstöðvarnar.

Merki Eyglóar, sem heitir einfaldlega EYGLÓ, fæst í Kiosk út á Granda.
Mynd/Aðsend

Vill sjá fleiri víkingahjálma

Fatahönnuðinn Eygló Margrét Lárusdóttir hentist inn í Geldingadali þegar síðasti séns var að ná rútu fyrir samkomubannið.

„Já, ég hentist í rútu inn eftir. Alein. Finnst ég ætti að fá plús í kladdann fyrir það. Helst tvo.“

Hún segist hafa tekið eftir ákveðnu trendi við gosstöðvarnar.

„Mér sýnast Diesel-gallabuxurnar vera að ryðja sér svolítið til rúms aftur.“

Er eitthvað sem er áberandi vinsælt í útvistarfatnaði Íslendinga?

„Klassíska ullarpeysan stendur alltaf fyrir sínu undir goretexinu,“ svarar Eygló.

Sjálf kaus Eygló að mæta á svæðið í því sem hún lýsir sem frekar ljótum jakka.

„En undir honum var ég hins vegar í fallegu Milla Snorrason ullarpeysunni minni og leggings frá Bið að heilsa niður í Slipp. Þannig að skilaboðin eru kannski að dæma ekki fólk fyrir að vera í ljótum jakka, því þú veist aldrei hvað leynist undir yfirborðinu.“

Er eitthvað sem þú myndir vilja sjá meira í klæðavali fólks á gosstöðvunum?

„Já, ég myndi vilja sjá fleiri eldfjallahúfur og víkingahjálma. Nú þegar það er fátt um ferðamanninn á fallega skerinu okkar þá finnst mér okkar túristaljós megi skína skærar,“ segir hún.

Hefurðu orðið vör við eitthvert „lúkk“ sem þér þótti sérstaklega skemmtilegt?

„Ég sá tvær nunnur við gosstöðvarnar. Fannst það svolítið skemmtilegt.“

Þú stefnir ekkert á að nýta tækifærið og gera litríka útivistarlínu frá Eygló?

„Ég er mikil útivistarmanneskja, svo það væri ekkert svo galið að dýfa tánum í þá laug. Ég gerði reyndar einu sinni buff handa mér og vinkonum mínum. Það sló í gegn.“

En línu innblásna af eldgosinu?

„Eins klisjulegt og það virðist þá leynast nú ansi falleg munstur í storknandi hrauninu. Ég meina, þessi glóandi rauðappelsínuguli.“

Heldurðu að það verði vinsælt hjá fatahönnuðum Íslands næstu misserin?

„Harpa vinkona mín gerði nú svona eldfjallalínu fyrir ekki svo löngu síðan. Svo varla fer maður að herma eftir.“

Hvað er annars á döfinni hjá þér?

„Ég er að hanna línu með Hugleiki Dagssyni fyrir HönnunarMars þar sem við ætlum að skreppa út í geim.“

Klassíska ullarpeysan stendur alltaf fyrir sínu undir goretexinu - Eygló Margrét

Stefán Svan reykur og er annar eigandi Stefánsbúðar/p3 á Laugarvegi.
Mynd/Aðsend

Gaman að sjá gömlu góðu kraftgallana

Stefán Svan rekur og er annar eigandi hinnar vinsælu hönnunarbúðar Stefánsbúð/p3 sem er staðsett neðst á Laugaveginum. Hann hefur ekki enn sem komið er gert sér ferð að gosstöðvunum sjálfur.

„Ég ætla að verða síðasti Íslendingurinn til að fara að gosinu,“ segir Stefán.

Hefurðu séð einhverjar myndir þaðan á samfélagsmiðlum?

„Það er eins og mig rámi í að hafa séð einn eða tvo pósta á samfélagsmiðlum, en ég vona að fleiri sjái sér fært að birta myndir af sér fyrir framan gosið,“ svarar hann léttur í bragði.

Finnst þér þú greina einhver sérstök einhver trend þar á þeim myndum sem þú hefur séð?

„Ég sakna þess að sjá ekki fleiri filtera á myndunum, er kanínu filterinn ekki vinsæll lengur?“

Hann segir alltaf einhverja hafa hælana þar sem við hin séum með tærnar í vali á útivistarfatnaði.

„Það er flott að sjá fólk nota góðu kraftgallana aftur eins og þegar ég var unglingur.“

Stefán segir það ljóst að sumir leggi sig fram við að tefla fram sínu besta þegar kemur að vali á fatnaði fyrir gosstöðvagöngu.

„Já, ég held að fólk sé alveg að reyna að flagga sínu fegursta á gossvæðinu en það má ekki gleyma því að það er mest „fashionable“ að klæða sig eftir aðstæðum.“

Ég ætla að verða síðasti Íslendingurinn til að fara að gosinu -Stefán Svan

Eru sumir mögulega að fara í eitthvað ópraktískt til að líta vel út á á myndum?

„Ég mundi ætla að fólk sem er ópraktískt í klæðavali taki með sér myndadress aukalega í poka fyrir samfélagsmiðla, annars væri það slæmt,“ segir Stefán.

Er eitthvað sem þú myndir vilja sjá meira í klæðavali fólks á gosstöðvunum?

„Lambhúshettur eru stórlega vanmetnar og ættu að koma sterkt inn á næstunni, verja andlitið fyrir veðri og vindum sem og hitanum frá flæðandi hrauninu.“

Hefurðu orðið var við eitthvert „lúkk“ sem þér þykir sérstaklega skemmtilegt?

„Ég er enn þá að bíða eftir því.“

Fatalína Helgu Lilju, BAHNS, hefur slegið í gegn hjá útivistarfólki, enda hönnuð fyrir útiveru.
Fréttablaðið/Anton Brink

Mætti sjálf með KFC-buff

Fatahönnuðurinn Helga Lilja Magnúsdóttir, sem gat sér fyrst gott orðs í hönnunarheiminum með merkinu Helicopter og nú Bið að heilsa niður í Slipp, skellti sér á gosstöðvarnar í ofsaveðri.

„Ég búin að fara en ekki njóta neitt sérlega kannski. Við vinir mínir völdum versta mögulega daginn til að fara þarna upp eftir. Það voru örugglega 20 m/sek. og mega hálka. Ég hef ekki hlegið jafn mikið að neinu lengi, algert rugl,“ segir hún. Því hafi hún lítið geta fylgst með straumum og stefnum í klæðavali gesta á gosstöðvum.

„Þegar ég náði að líta upp sökum vinds sá ég þennan fína goretex-frumskóg enda ekkert annað í boði þegar maður liggur lóðréttur í vindi. En á samfélagsmiðlum er það sama upp á teningnum. Svartur goretex-fatnaður ræður ríkjum að miklu leyti. Kannski ein og ein appelsínugul úlpa. Ég var reyndar sjálf með KFC-buff og maskara niður á höku, mjög smart.“

Hún segist klárlega sjá það á samfélagsmiðlum að sumir leggi sig meira fram en aðrir í klæðavali fyrir ferðina.

„Já, sumar geggjaðar týpur leggja sig sko fram og eru í BAHNS (Bið að heilsa niður í Slipp) neonpeysunum sínum sem fengust í takmörkuðu upplagi. Það gleður mig mjög að sjá þar sem ég er eigandi BAHNS. Hef reyndar séð marga skarta peysunum sínum við gosið. Ég gerði það að sjálfsögðu líka en gat ekkert farið úr jakkanum til að skella í eina rándýra sökum veðurs,“ segir hún og hlær.

Helga Lilja mætti að sjálfsögðu með KFC-buff á gosstöðvarnar.
Mynd/Aðsend

Helga Lilja segir peysurnar einmitt kjörnar í fjallgöngur, auðveldara sé að finna viðkomandi vegna litarins.

„Ég skora á alla þá sem eiga neon-peysuna að skella sér í hana og koma sér upp eftir. Væri gaman að eiga nokkrar góðar. Svo sá ég reyndar hóp af hressum strákum í jogginggöllum og strigaskóm hoppandi þarna um með rauðvínsflösku. Það var vissulega mjög gott útivistarlúkk líka.“

Nú hefur Helga Lilja einbeitt sér að gerð fatnaðar sem hentar í útiveru.

„Ég hanna í raun fatnað fyrir útiveru hvort sem það er gos eða ekki en þetta eldgos er samt sem áður kærkomið þar sem það er eitthvað annað en COVID og í raun ekki margt annað að gera?"

Helga hefur spottað nokkra í neon-lituðu BAHNS peysunni sem kom í takmörkuðu upplagi.
Mynd/Aðsend