Það hefur ekki farið framhjá neinum að faraldur hefur skekið heimsbyggðina alla og neytt fólk úr öllum stéttum samfélagsins heim í einangrun, sóttkví og jogginggalla.

Tískan undanfarna mánuði hefur litast af þessum aðstæðum og tískupallarnir endurspeglað yfirlýsta ást mannkynsins alls á mjúkum víðum buxum, hettupeysum og hlýlegum múnderíngum.

Tískupallurinn hjá Fendi var eins og ævintýraskógur og völundarhús á tískuvikunni í Shanghai í mars.

Okkur þyrstir í eitthvað fallegt

En eitt er víst að eftir mánaðalanga heimasetu er marga tískuklóna farið að þyrsta í eitthvað fallegt og flæðandi, eitthvað úr hrynjandi silki, með rómantískri blúndu og tjulli, eitthvað ævintýralega guðdómlegt og vel sniðið.

Í öllum ævintýrum er að finna ill öfl. Hér er vonda nornin holdi klædd og hefur aldrei verið glæsilegri. Tískuvikan í París í október 2020.
Hringabrynjan var þema hjá mörgum.

Hringabrynjan var þema hjá mörgum, hvort sem um var að ræða málmkennd jakkaföt, útskorið leður eða samsettar pallíettur með hlekkjum og skrautsteinum eins og sjá má hér á riddaralegri ævintýraprinsessu úr smiðju Pacos Rabanne á tískuvikunni í París í október.

Djúpt í ævintýraskóginum

Þar kemur vor- og sumartískan til bjargar enda hafa fjölmörg tískumerki orðið vör við þessa þörf fólks, að lífga upp á hversdaginn, klæða sig upp og taka vel á móti grísku gyðjunni innra með sér. Tískusýningin hjá Fendi í Kína í mars fyrir vor/sumar 2021 var til dæmis ævintýri líkust og fyrirsæturnar svifu um pallana eins og hábornir álfar úr ævintýraskógi. Aðrir leiddu áhorfendur dýpra inn í dimman ævintýraskóginn og sýndu dekkri hliðar ævintýranna eins og sjá má hjá Yohji Yamamoto í tískuvikunni í París í október 2020.

Samsettar pallíettur geta líka verið rómantískar eins og sjá má hjá Louis Vuitton í október 2020 á tískuvikunni í París.
Rómantík, ævintýri, prinsessur í kastalaturni, dragdrottningar og margt fleira kom til hugar á tískusýningu Paul & Joe Ready í október í París. Fréttablaðið/Getty.