Margir setja á sig hatt til að verja sig fyrir sólinni, aðrir til að hylja óhreint hár og enn aðrir til að fylgja nýjustu tísku. Það er ákaflega merkilegt að Prada-hattarnir, sem fást í sjö litum, eru unnir úr endurunnu nælongarni sem safnað var úr hafinu. Þetta er hreinsað plastsorp sem hefur komið frá fiskinetum og textílúrgangstrefjum. Mjög ánægjulegt er þegar hátískuhúsin hanna vöru á umhverfisvænan hátt sem síðan slær í gegn, enda flottir hattar. Skemmtilegir litir setja síðan punktinn yfir i-ið.
Hattarnir eru sagðir passa vel við sumarkjóla eða stuttar gallabuxur. Sumum finnst þessir hattar barnalegir í lögun en eftir að Rihanna sýndi sig með Prada-hatt ásamt frægustu fyrirsætum heims varð ekkert barnslegt við þá. Brad Pitt sást með „fötuhatt“ á Opna bandaríska meistaramótinu og sömuleiðis Edward Enninful frá breska Vogue-tímaritinu, meira að segja við jakkaföt. Það er engin spurning hvað verður á höfði fólks í sumar vilji það halda í tískuna og klæða sig eins og fræga fólkið.



