Tískuiðnaðurinn hefur verið gagnrýndur fyrir ósjálfbærni og neikvæð áhrif á umhverfið, sérstaklega þegar kemur að „fast fashion“ fyrirbærinu og skammlífum tískusveiflum. Mörg efni sem eru algeng innan tískuiðnaðarins eru framleidd með mengandi efnum og notast við ósjálfbærar náttúruauðlindir eins og jarðefnaeldsneyti. Nútíminn er trunta, sagði skáldið og með aukinni umhverfisvitund og útbreiddari upplýsingum um ástand umhverfismála verður sífellt erfiðara að halda samviskunni hreinni.

Þrátt fyrir það er tíska óneitanlega skemmtileg og hún veitir okkur gleði og leiðir til sjálfstjáningar. Þó svo margt innan iðnaðarins sé ekki með allra besta móti umhverfislega séð, þá er samt sem áður vel hægt að taka meðvitaðar ákvarðanir um að velja betur þegar kemur að fatakaupum. Eitt af því sem hægt er að gera er að kaupa fatnað sem saumaður er úr umhverfisvænum efnum. En hvaða efni koma til greina þegar velja á þessi svokölluðu „umhverfisvænu efni“? Hér á eftir eru nefnd algeng efni sem ætti að vera hægt að finna í flestum tískuvöruverslunum.

Bómull er ekki bara bómull

Þó svo bómull komi mörgum fyrst í hug þegar þeir hugsa um náttúrulegt tau, þá er bómull ekki einfaldlega bómull þegar kemur að umhverfinu og sjálfbærni. Hefðbundin bómullarframleiðsla krefst gífurlegs magns af vatni, skordýraeitri og öðrum skaðlegum efnum.

Ullin er falleg, hlý, endingargóð og umhverfisvæn. Fréttablaðið/Ernir.

Það eru þó til sjálfbærar aðferðir við framleiðslu á bómull sem taka til greina áhrif framleiðslunnar á umhverfið. The Better Cotton Initiative er alþjóðlegt átak sem styrkir ræktendur víða um heim í átt að sjálfbærari bómullarframleiðslu þar sem tekið er tillit til heilbrigði jarðvegsins, vatnsaðgangs og fleira. Um 12,5 prósent af allri bómull á markaðnum eru framleidd undir þessum hatti. Einnig má nefna framleiðslu á lífrænni bómull. Hún er ræktuð án notkunar skordýraeiturs, genabreyttra fræja og manngerðs áburðar.

Til þess að ganga úr skugga um hvort bómullin í vörunni sé framleidd á hefðbundinn skaðlegan máta, eða á sjálfbærari máta, er alltaf hægt að skoða merkimiðann á flíkinni. Ef hún er merkt GOTS (Global Organic Textile Standard) þá er framleiðslan laus við eiturefni, skordýraeitur og skaðlegan áburð sem skaðar bæði umhverfið og verkamennina. Einnig er góð regla að velja ávallt efni sem eru ólituð eða lituð með náttúrulegum litarefnum.

Ull er gull

Þó svo ullarframleiðsla hafi gegnum tíðina ekki uppfyllt kröfur um dýravelferð þá er ullarframleiðsla þrátt fyrir það sjálfbær. Ull er allt í senn endurnýjanleg, endingargóð og lífbrjótanleg. Að auki hafa sumir fjárbændur framleitt ull með því að nota tækni sem bindur kolefni úr andrúmsloftinu og minnkar þannig umhverfisáhrif.

Lín

Lín er tau sem búið er til úr hör. Línið hefur fylgt mannkyninu allt frá Fornegyptum sökum þess hve ótrúlega endingargott það er, sem og vegna kælieiginleika þess. Svo lengi sem hörinn er ræktaður á svæðum sem henta, eins og víða í Evrópu, þá er engin þörf á áburði eða skordýraeitri. Að auki þarfnast ræktunin þar ekki mikillar vökvunar og hefur ekki slæm áhrif á jarðveginn. Í dag eru nær þrír fjórðu hlutar af öllum hör í heiminum ræktaðir innan Evrópusambandsins.

Lyocell er afar fjölbreytt efni sem hægt er að nýta í ýmiss konar tískufatnað. Hér má sjá kínverska fatahönnuðinn Chen Wen nota Lyocell í fallegan kjól á tískuvikunni í Kína fyrir vor og sumar árið 2019. Mynd/Getty

Lyocell og náttúrutrefjar

Lyocell er náttúrulegt efni, framleitt úr sellulósa sem unnið er úr viðarkvoðu. Hráefnið eða trefjarnar nefnast Tencel og er nafnið í eigu austurrísks fyrirtækis. Tencel- trefjarnar og þar með Lyocell eru lífbrjótanleg og framleiðslan krefst mjög lítils umhverfisrasks. Úrgangsvatn frá framleiðslunni er endurnýtt og engin skaðleg eiturefni eru notuð.

Meðal annarra náttúruefna sem valda litlu umhverfisraski eru efni eins og korkur, bambus og jafnvel þari og hafa umhverfismeðvitaðir hönnuðir framleitt fatnað og tískuvörur sem standast siðferðislegar og umhverfislegar kröfur sem og kröfur grænkera.

Hampur hefur verið notaður svo öldum skiptir við ýmiss konar framleiðslu og meðal annars í gerð náttúruvæns tauefnis. Þá er plantan þekktust fyrir hippamenninguna á 7. og 8. áratugnum. Það er ekki að ástæðulausu að hampefni eru að koma aftur í tísku, en ræktun hamps er sérlega sjálfbær. Þessi tiltekna planta af kannabisætt vex einstaklega hratt, þarfnast einskis skordýraeiturs og étur ekki upp öll næringarefni í jarðveginum.

Tau úr hampi er mjög áþekkt líni, er sérlega endingargott og ertir ekki húðina. Hampefni í sínu náttúrulegasta formi heldur ekki lit vel, nema mjög sterk litarefni séu notuð. En ólitaður og náttúrulega litaður hampur getur þrátt fyrir það gefið af sér fallega en daufa tóna.