Rokka­mman Tina Turner hefur selt réttindin að öllum lögum sínum til út­gáfu­fyrir­tækisins BMG. Þar á meðal eru slagarar á borð við The Best, What‘s Love Got To Do With It og Private Dancer.

Með samningnum öðlast BMG einnig réttindin á nafni Turner, út­liti og í­mynd fyrir fram­tíðar sam­starfs- og aug­lýsinga­samninga.

Fyrir­tækið hefur ekki greint frá því hversu mikið það greiddi fyrir réttindin en sam­kvæmt heimildar­mönnum BBC hefur lík­lega verið um að ræða meira en 50 milljónir Banda­ríkja­dala, and­virði tæpra 6,5 milljarða ís­lenskra króna.

Turner, sem er 81 árs og ein þekktasta popp­stjarna tón­listar­sögunnar, sagðist vera full­viss um að tón­listin hennar væri í öruggum höndum.

Samningurinn við BMG þýðir að hún mun af­henda fyrir­tækinu sinn hlut af upp­töku- og út­gáfu­rétti tón­listar sem spannar yfir sex ára­tugi af tón­listar­ferli hennar. Plötu­fyrir­tækið Warner Music mun halda á­fram að dreifa tón­list popp­stjörnunnar.

„Tón­listar­ferða­lag Tinu Turner hefur haft á­hrif á hundruð milljónir fólks um allan heim og heldur á­fram að ná til nýrra hlust­enda,“ segir Hartwig Masuch, yfir­maður BMG.

„Það er okkur mikill heiður að taka við um­sjón með tón­listar­legum og við­skipta­legum hags­munum Tinu Turner. Þetta er á­byrgð sem við tökum al­var­lega og munum fylgja eftir af kost­gæfni. Hún er virki­lega og ein­fald­lega sú besta,“ segir hann.

Að sögn Masuch stefnir fyrir­tækið að því að kynna tón­list Turner fyrir nýjum hlust­enda­hópi, þá sér­stak­lega á streymis­veitum og sam­fé­lags­miðlum á borð við TikTok.

Turner hefur verið meira og minna á eftir­launum síðan 2009 en á­hugi á tón­list hennar hefur aukist gífur­lega undan­farið í kjöl­far þess að heimildar­myndin Tina var gefin út um líf hennar á HBO 2021 og sam­nefndur söng­leikur var frum­sýndur á West End.

„Líkt og hver annar lista­maður er það að vernda ævi­starf mitt, mína tón­listar­arf­leifð, mér mjög per­sónu­legt. Ég er full­viss um að verk mín eru í fag­mann­legum og öruggum höndum hjá BMG og Warner Music,“ segir Turner í yfir­lýsingu.