Ljóð­skáldið Sunna Dís Más­dóttir hlaut um helgina Ljóð­staf Jóns úr Vör 2023 fyrir ljóðið „Á eftir þegar þú ert búin að deyja“ auk þess sem hún fékk viður­kenningu í sömu keppni fyrir ljóðið „Villi­sveppir í Pripyat“. Sunna Dís er rit­höfundur, gagn­rýnandi og þýðandi og með­limur í skálda­kollektífinu Svika­skáldum.

Hvernig var til­finningin þegar þú fréttir þetta?

„Ég er svo­lítið á bleiku skýi, þetta var bara ó­trú­lega gaman. Hún stóð sig reyndar svo vel, Kristín Svava sem var for­maður dóm­nefndar, þegar hún hringdi að ég hélt fyrst að hún væri að hringja til að skamma mig yfir ein­hverju, hún var svo al­var­leg,“ segir Sunna og hlær. „Þetta kom mér alveg tvö­falt á ó­vart.“

Að sögn Sunnu var verð­launa­ljóðið búið að liggja ofan í skúffu í dá­góðan tíma áður en hún dró það fram og sendi í keppnina í haust.

„Þetta er svona fimm ára gamalt ljóð og hitt sem ég sendi og fékk viður­kenningu líka er enn þá eldra. En svona er þetta ferli oft, maður skrifar eitt­hvað og stingur ofan í skúffu og svo tekur maður það upp aftur og fiktar að­eins í því. Frum­út­gáfan er alveg fimm ára en svo er ég búin að koma aftur að því og leika mér að­eins að því,“ segir hún.

Ég er svo­lítið á bleiku skýi, þetta var bara ó­trú­lega gaman.

Dýr­mæt og fal­leg stund

Sunna sendi í haust frá sér sína fyrstu ljóða­bók sem ber titilinn Plómur. Spurð um hvort sigur­ljóðið sverji sig í ætt við þá bók segir Sunna það gera það að vissu leyti.

„Sigur­ljóðið er rosa­lega per­sónu­legt og beint upp úr minni reynslu. Það eru náttúr­lega svona prósa­ljóð líka í Plómum, ég hef mjög gaman af því formi, að leika mér að­eins með flæði og hrynjandi í þessum prósa­ramma,“ segir hún.

Hvað fjallar ljóðið Á eftir þegar þú ert búin að deyja um?

„Frum­út­gáfan varð til mjög snemma eftir að föður­amma mín dó. Mér finnst ég hafa verið svo heppin og lán­söm að hafa fengið að vera mikið með henni síðustu dagana. Við sátum mikið saman fjöl­skyldan og ég las fyrir hana ljóð úr bókinni hans Sigurðar Páls­sonar sem var þá ný­fallinn frá. Þetta var eitt­hvað svo ó­trú­lega dýr­mæt og fal­leg stund og eitt­hvað sem ég hafði aldrei upp­lifað áður, að fá að fylgja mann­eskju í dauðann. Það snerti mig rosa­lega djúpt að fá að taka þátt í því með fjöl­skyldunni.“

Sunna Dís segist svífa um á bleiku skýi eftir að hún fékk Ljóðstaf Jóns úr Vör um helgina fyrir ljóðið Á eftir þegar þú ert búin að deyja.
Fréttablaðið/Anton Brink

Inn­blásin af Tsjern­obyl

Eins og áður sagði fékk Sunna Dís ekki að­eins fyrstu verð­laun í ljóða­sam­keppninni heldur hlaut hún einnig viður­kenningu fyrir ljóðið Villi­sveppir í Pripyat sem hún skrifaði fyrir sjö árum.

„Það sprettur upp úr því að ég hnaut um svo rosa­legar ljós­myndir frá Prypjat, borginni við Tsjern­obyl. Þær höfðu svo mikil á­hrif á mig og ég skrifaði upp úr því. Það er annað ljóð sem maður tekur upp aftur og aftur og svo núna þegar ég kom að því þegar ég ætlaði að fara að senda það inn í keppnina þá var það búið að öðlast ein­hverja svona auka­merkingu sem var ekki endi­lega til staðar fyrst. Sem er svo á­huga­vert, hvernig tíminn ein­hvern veginn víkkar og stækkar ljóðin,“ segir Sunna og vísar þar til stríðsins í Úkraínu.

Finnst þér mikil­vægt að leyfa ljóðunum þínum að gerjast og vaxa með tímanum?

„Stundum og stundum ekki. Ég er náttúr­lega líka rosa mikið fyrir kraftinn í þessu hráa sem við erum svo­lítið að vinna með í Svika­skáldum, að vera ein­hvern veginn í frum­kraftinum. En þessi tvö höfðu alla vega gott af því, ég held að það hafi styrkt þau bæði að fá að gerjast að­eins og hvíla sig og að ég kæmi nokkrum sinnum að þeim aftur.“

Frá verðlaunaafhendingu Ljóðstafs Jóns úr Vör í Salnum í Kópavogi.
Mynd/Leifur Wilberg

Byr undir báða vængi

Ljóð­stafur Jóns úr Vör hefur verið veittur ár­lega af Kópa­vogs­bæ síðan 2001 í minningu skáldsins sem lést 2000. Auk Sunnu Dísar hlutu ýmis önnur skáld verð­laun og viður­kenningu í keppninni, þar á meðal Sol­veig Thor­odd­sen sem hlaut 2. verð­laun fyrir ljóðið „Lok vinnu­dags í slátur­tíð“ og Helga Ferdinands­dóttir sem hlaut 3. verð­laun fyrir ljóðið „Annað líf“. Sam­hliða keppninni eru veitt verð­laun í Ljóða­sam­keppni grunn­skóla Kópa­vogs.

Eru svona keppnir mikil­vægar fyrir ljóð­skáld?

„Já, mér finnst það bara ó­trú­lega mikil­vægt og mér fannst þetta líka bara eitt­hvað svo flott at­höfn. Það var svo vel að þessu öllu staðið og svo gaman að heyra öll þessi ljóð lesin upp sem fengu viður­kenningar, líka í Ljóða­sam­keppni grunn­skólanna sem er náttúr­lega þarna á sama tíma. Það gerir held ég alveg ó­trú­lega mikið fyrir sam­fé­lag skrifandi fólks að hafa svona keppnir.“

Hvað er næst á döfinni hjá þér?

„Ég er að vinna í hand­riti sem hefur verið að malla í svo­lítinn tíma og ég finn að nú er ég bara æst í að geta hellt mér í það af fullum krafti. Maður fær svona ein­hvern byr undir báða vængi, mér líður alla vega þannig. Nú þarf ég bara að hreinsa borðið af öðrum verk­efnum og ein­henda mér í þetta.“

Á eftir þegar þú ert búin að deyja

Á eftir þegar þú ert búin að deyja ætla ég að taka þig með mér héðan, sveipa um þig dimm­rauða teppinu sem þú felur þig undir, hylja þig nepalskri jak­uxa­ull og stinga tönnunum þínum í vasann. Vatnið drýpur úr svampinum á nátt­borðinu. Hann er tann­holds­bleikur á hvítum pinna og þú læsir kjálkunum um hann eins og ung­barn um móður­brjóst þegar hann strýkst við varir þínar. Fyrsta við­bragðið er það síðasta sem hverfur. Á eftir þegar þú ert búin að deyja förum við í sirkus og borðum kandí­flos sem límist í góminn klístrast við tann­holdið spunninn sykur á pappírs­vafningi, hann leysist upp á tungunni eins og tíminn og ég rétti þér tennurnar og sé hendur þínar verða fleygar á ný.

-Sunna Dís Más­dóttir