Yfirskrift tónleikanna er: Jólahjón – Hátíð í bæ en dagskráin samanstendur af hátíðlegum jólalögum í bland við minna hátíðleg jólalög og sem endranær verður boðið upp á eitthvað sprell og jafnvel leynigesti.

„Við byrjuðum með þessa tónleika árið 2011. Kveikjan að því var sú að við heyrðum að það væri svo dýrt að fara á jólatónleika og þar sem við erum starfandi söngvarar, organistar og söngkennarar ákváðum við að gefa allaveganna einn klukkutíma frítt með jólatónleikum í samstarfi við Hafnarfjarðarkirkju,“ segir Örvar Már.

Það er óhætt að segja að jólatónleikarnir hafi fallið fólki vel í geð því þeir verða þeir tólftu á jafnmörgum árum.

„Við höfum fengið góð viðbrögð og fólk er að spyrja okkur hvort við ætlum ekki örugglega að vera með tónleikana. Þá erum við minnt reglulega á þá af mörgum sem hafa komið og það er gaman að vita til þess að fólk man eftir þeim. Þetta er partur af þeirri jólastemningu sem hefur verið að skapast í Hafnarfirði á undanförnum árum eins og með Jólaþorpinu og skreytingunum í miðbænum og í Hellisgerði.

„Við náðum meira að segja að halda þessum tónleikum úti á Covid-tímanum en við fengum styrk frá Hafnarfjarðarbæ til að senda tónleikana út í streymi. Við höfum líka verið að fara með léttara efni af þeim inn á elli- og hjúkrunarheimilin í Hafnarfirði en við gerum það að vísu ekki þetta árið,“ segir Örvar.

Góður stígandi í þessu

Örvar segir að jólatónleikarnir hafi í gegnum árin verið vel sóttir.

„Eigum við ekki að segja að það hafi verið góður stígandi í þessu. Við leggjum ekki mikið í auglýsingakostnað og við getum orðað þetta þannig að þetta er ekki hagnaðardrifið hjá okkur sem stöndum að tónleikahaldinu. Þetta eru bara jólin og þá er tími til að gefa af sér og gleðja. Við verðum með þessi klassísku jólalög og svo erum við alltaf að brjóta þetta upp með óvæntum atriðum. Þetta snýst ekki síður um að skemmta okkur og ef við gerum það getum við örugglega skemmt öðrum.“

Hjónin eru öll í tónlistageiranum. Örvar er óperusöngvari og hefur verið í tónlist frá því hann man eftir sér, að eigin sögn. Þóra kona hans er söngkona og söngkennari, Jóhanna Ósk er söngkona og víóluleikari og Bjartur er organisti og söngvari.

Skapa góða jólastemningu

„Jólahjónin“ eru byrjuð að stilla saman strengi sína og undirbúa tónleikana sem Örvar segir að þau séu alltaf jafn spennt fyrir.

„Það þarf að setja niður prógramm, velja þau lög sem á að syngja og passa upp á að hafa ekki alltaf sömu lögin. Við erum með lista með hvenær hvaða lag var sungið og af hverjum þannig að við reynum að skipta lögunum á milli okkar. Tónleikarnir hefjast seinni partinn og það passar því vel að kíkja fyrst í Jólaþorpið, mæta á tónleikana og svo er fullt af veitingastöðum sem fólk getur farið á til að næra sig eftir þá.

Við gerum okkur alveg grein fyrir því að það eru margir frábærir jólatónleikar sem boðið er upp á úti um allt. En ef þú ætlar að fara með alla stórfjölskylduna þá kostar það skildinginn. Við ætlum að reyna að skapa góða jólastemningu og hafa gaman en við gætum ekki boðið upp á þessa fríu tónleika nema með hjálp frá Hafnarfjarðarkirkju. Við kjósum að kalla tónleikana Hátíð í bæ, sem þýðir að lagið hátíð í bæ er alltaf sungið,“ segir Örvar.

Ókeypis aðgangur er að tónleikunum sem hefjast klukkan 17 í Hafnarfjarðarkirkju eftir viku og eru allir velkomnir á meðan húsrúm leyfir.

Þetta snýst ekki síður um að skemmta okkur og ef við gerum það getum við örugglega skemmt öðrum, " segir Örvar Már.