Herbergi í öðrum heimi eftir Maríu Elísabetu Bragadóttur hefur að geyma sjö sjálfstæðar smásögur. Efnistökin eru fjölbreytt og þó þau geti verið átakanleg eru sögurnar fullar af húmor, innsæi og hlýju. María Elísabet er með háskólapróf í heimspeki. Samhliða námi starfaði hún sem pistlahöfundur og skrifaði meðal annars Bakþanka í Fréttablaðinu. Hún hefur alla tíð lesið og skrifað mikið og segist alltaf hafa skrifað sögur.

„Þegar ég var í námi fékk ég dýrmætt tækifæri til að skrifa pistla en við pistlaskrifin fann ég hvað mig langaði mikið til að skrifa skáldskap. Margar af sögunum voru lengi að gerjast innra með mér. Tími og fjarlægð held ég að séu nauðsynleg hráefni í skrifum. Til dæmis fékk ég hugmyndina að annarri sögunni í bókinni, Mannleysu, þegar ég var tvítug. Ég vildi skrifa sögu um vináttu barna, sögu sem fangaði gjána milli barna og fullorðinna og sögu sem væri nostalgísk fyrir fólk á mínum aldri því hún gerist í upphafi 21. aldar. En ég vildi líka skrifa um heilindi og hvað felst í því að vera almennileg manneskja. Það sem er einmitt hrífandi við smásöguna er að þó að hún sé stutt þá getur hún verið lagskipt og djúp.“

Sannleikur í skáldskapnum

Sögusvið sagnanna er Reykjavík en aðspurð um innblásturinn segist María ekki hafa þurft að leita langt. „Margar sögurnar fjalla oftar en ekki um ungt fólk í Reykjavík og það er einmitt það sem ég er sjálf, svo ég þurfti kannski ekki að leggjast í mikla rannsóknarvinnu. Ég held að höfundar nýti sér oftar en ekki einhvern persónulegan reynsluheim þó að sögurnar séu ekki um þá sjálfa. Ég held að það sé mikilvægt að höfundurinn trúi því sem hann er að skrifa þó að hann sé að semja sögu. Kannski það sé forsenda þess að lesandinn trúi því sem hann les en skynji ekki falskan tón.

Sambönd sem við veljum ekki

Nokkrar sögurnar fjalla um sambönd barna og fullorðinna, líka uppkominna barna. Fyrsta sagan, „Self-Made“ fjallar um mæðgnasamband. Söguhetjan er kona á þrítugsaldri sem er upptekin af ímynd sinni út á við og finnst móðir sín hafa verið slæm fyrirmynd og ekki staðið sína plikt. En það er hægara sagt en gert að segja sig úr lögum við barnæskuna eins og söguhetjan vill gera og í sögunni er heldur alls ekki allt sem sýnist. „Fjölskyldusambönd eru mér hugleikin. Flækjur erfast jafnvel kynslóð fram af kynslóð og búa til þessa einstöku nánd sem er frábær efniviður í skáldskap. Fjölskyldusambönd eru sambönd sem við veljum okkur yfirleitt ekki sjálf og það er kannski einmitt það sem gerir þau svona merkileg.“

Skáldsaga í bígerð

Spurð um framhaldið segist María Elísabet nú þegar vera byrjuð á næstu bók sem er skáldsaga. „Ég er mjög mikill aðdáandi smásagnaformsins, ég elska smásögur, en þegar ég var að skrifa Herbergi í öðrum heimi fannst mér stundum erfitt að skilja við sögupersónurnar. Svo nú er ég að vinna í skáldsögunni minni, þá getur maður aldeilis varið mörgum blaðsíðum með sögupersónunum sínum. Mig langar að skrifa alls konar bækur.“